Where there is smoke, there is fire!
Myndin er fengin af vefnum www.uf.is |
Hafi ég einhvern tíma verið í vafa um að hressu krakkarnir í Evrópusambandinu væru algerlega spinnegal — eru þau endanlega búin að sannfæra mig um að svo sé. Nýlegar hugmyndir framkvæmdastjórnar ESB um að birta myndir af illa útleiknum líkamspörtum á vindlingaumbúðum til að „hræða fólk duglega svo það láti af tómlæti sínu gagnvart reykingum“ er svo subbuleg og vanhugsuð að ég ætla ekki að gera þeim það til geðs að eyða heilu helgarnesti í viðfangsefnið. Hugmyndin er hræðileg og ber þess glöggt merki að menn eru gjörsamlega farnir að tapa sér í allri umræðu um reykingar.
Reykingar eru óhollar og ég treysti mér til að fullyrða að reykingamenn vita það mætavel. Þannig hygg ég að það séu fáir sem reyki í þeirri von um að það lengi líf þeirra og styrki öndunarfærin. Til þess eru aðrar og betri leiðir færar.
Til dæmis að jogga.
Í joggingalla.
Hugsið ykkur hvað samfélagið yrðu sjúkt ef þessari aðferð væri beitt á fleiri sviðum þjóðfélagsins. Þannig eru myndir af nöktum offitusjúklingum utan á sælgætispakkningum og flennistórar myndir af bílhræum límdar á allar nýjar bifreiðar baráttuaðferðir sprottnar af nákvæmlega sama meiði.
Það er óvinsælt að bera í bætifláka fyrir reykingar enda eru þær öllu heilli ekki lengur normið í samfélaginu. Það er offita hins vegar. Og ég hygg að allir þeir fjölmörgu Íslendingar sem eiga í baráttu við aukakílóin ættu að spyrna við fótum enda fullljóst að þegar forræðisöflin verða leið á reykingum eru offitusjúklingar næstir á dagskrá.
Bíðið bara og sjáið.
Kannski væri þó fulllangt seilst að gera því skóna að kirkjunnar menn muni stíga fram innan Evrópusambandsins og krefjast þess að ljósmyndir af augnsjúkdómnum gláku verði límdar utan á allar erótískar kvikmyndir — en þegar ESB á í hlut er sennilega aldrei hægt að slá nægilega marga varnagla.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007