Kínamúrar

Í Fréttablaðinu þann 13. október síðastliðinn birtist grein varðandi hagmunaárekstra milli deilda KB banka. Svokölluðum Kínamúrum er ætlað að koma í veg fyrir að bankar nýti sér upplýsingar til að ná forskoti á aðra fjárfesta.

Í Fréttablaðinu þann 13. október síðastliðinn birtist grein varðandi hagmunaárekstra milli deilda KB banka. Hélt Fréttablaðið því fram að reglur um aðskilnað milli fjárfestinga- og viðskiptabankasviðs höfðu ekki verið virtar og fyrirtækið hefði samnýtt upplýsingar mismunandi sviða bankans. Forsvarsmenn viðskiptabankasviðs höfðu tekið eftir því að greiðslustaða fyrirtækisins hafði farið versnandi og bankinn óttast að lánið verði ekki greitt. Til að hraða greiðslu voru upplýsingar látnar ganga til fjárfestingarbankasviðs.

Í fréttinni var KB banki sakaður um misnotkun á tiltækum upplýsingum milli mismunandi starfsviða bankans. Ásakanirnar varða brot á reglum um svokallaða Kínamúra en samkvæmt þeim ber fyrirtækjum að sýna fram á að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrum aðskilnaði einstakra starfssviða. Taka ber fram að KB banki taldi að hagsmunaárekstrar hefðu ekki átt sér stað, heldur hafi málið varðað takmörkun á tjóni bankans, þar sem ekki hafði verið staðið í skilum við skuldbindingar hans.

Slíkar ásakanir hafa sem betur fer sjaldan komið upp. Ýtarlegar reglur gilda um hagsmunaárekstra í fjármálastarfsemi á Íslandi og beinast að svokölluðum “kínamúrum”. Þær reglur er að finna í 13. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfafyrirtæki, en þar er fjallað um aðskilnað einstakra starfssviða. Er reglunum ætlað að tryggja að viðkvæmar upplýsingar berist ekki milli starfssviða og að starfsmenn gefi ekki með neinum hætti upplýsingar utan viðkomandi starfssviðs. Sambærilegar reglur er að finna í löggjöf annarra Evrópuríkja og í Bandaríkjunum.

Í leiðbeinandi tilmælum frá fjármálaeftirlitinu um fjármálafyrirtæki kemur fram að kínamúrar séu mikilvægt tæki til að viðhalda trúverðugleika fjármálafyrirtækja. Í skýrslunni segir einnig að tryggja þurfi sérstaklega að viðkvæmar upplýsingar berist ekki milli starfssviða og að starfsmenn gefi ekki með neinum hætti upplýsingar um verkefni og gagnabrunna utan viðkomandi starfssviðs. Reglurnar taki til þess hvernig samskiptum milli starfssviða er háttað.

Reglur um kínamúra hafa verið gagnrýndar með þeim rökum að þær sinni ekki hlutverki sínu sem skyldi. Gjarnan komi upp dæmi þar sem hagsmunaárekstrar verða í rekstri fjármálafyrirtækja og því séu slíkar reglur séu því ekki nægileg vörn til að fyrirbyggja misnotkun. Slíkar raddir hafa heyrst hér á landi sem annarsstaðar og á síðasta löggjafarþingi var meira að segja lagt fram þingmannafrumvarp þess efnis að hliðarstarfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja yrðu þrengri skorður settar. Tilgangurinn var skýr, að framkalla skýran aðskilnað milli viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi.

Þrátt fyrir að ávallt komi upp dæmi sem valda því að dregnar eru fram neikvæðar hliðar fjármálamarkaðarins verður að gefa því gaum að velgengni íslenskra fjármálafyrirtækja má að verulegu leyti rekja til aukins frelsi á fjármálamarkaði. Ef reglur um aðskilnað milli sviða verða hertar mun það skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum og starfsvettvangur verulega skertur. Íslenskur fjámálamarkaður er enn í þróun og er nauðsynlegt er að gefa starfseminni sem mest svigrúm til að vaxa og dafna án frekari hamla á viðskiptum þeirra.

Það er skoðun greinarhöfundar að ekki sé þörf á jafn róttækum aðgerðum og að aðskilja starfssvið bankanna að fullu. Ýtarlegar reglur eru til um kínamúra og eiga því að vera nægilegt aðhald fyrir fjármálafyrirtæki þar sem þau þurfa einnig að lúta aðhaldi markaðarins. Mikill þrýstingur er á aðila sem starfa á fjármálamarkaði að virða lög og reglur og koma í veg fyrir atvik sem geta svert orðspor og ímynd fyrirtækis. Virðist sem bankarnir geri sér grein fyrir mikilvægi góðs orðspors því ekki hafa komið upp mörg tilvik um bresti á kínamúrum fjármálafyrirtækja landsins. Það skiptir miklu máli fyrir almenning og viðskiptavini að geta treyst því að ekki séu til staðar hagsmunaárekstrar innan bankanna. Starfsemin er að verulegum hluta byggð á viðskiptavild og því verða slík fyrirtæki að gæta þess að spila eftir leikreglum. Fyrirtæki geta aðeins aukið velvild með því að auka traust markaðarins og traust viðskiptamanna banka er mjög mikilvægt til þess að afla viðskipta.

Ljóst er að aðhald markaðar er virkt því um leið og fréttist um hugsanlega hagsmunaárekstra innan KB banka voru fjölmiðlar komnir í spilið og fyrirtækið fékk neikvæða umfjöllun á síðum dagblaðanna. Þótt deila megi um hvort um raunverulega hagsmunaárekstra hafi verið að ræða má samt sem áður draga ákveðið fordæmi af málinu. Fjölmiðlar eru fyrirtækjunum aðhald. Skýr og greinargóð umfjöllun um tilvik sem þessi veldur því að önnur fjármálafyrirtæki styrkja kínamúra aðskildra starfsviða til að koma í veg fyrir sambærileg tilvik.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.