Í pólitískri umræðu miða menn oft alla umræðuna út frá því sem er. Þeir sem leggja til breytingar þurfa að útskýra hvað það er við núverandi ástand sem sé svona slæmt. Ég held að öllum væri hollt að leggja fyrir sjálfa sig lítið próf og spyrja: „Ef málunum væri öfugt háttað, mundi ég vilja skipta til baka?“
Ef áfengi yrði selt í verslunum, mundi einhver í hinnu sýnilega litrófi stjórmálanna leggja til að þessi vöruflokkur yrði tekin þaðan út og seldur í sérstökum, illa merktum dýflissum? Nei, auðvitað ekki. Dæmin frá nágrannalöndunum sýna það. Jafnvel í mjög „félagslega þenkjandi“ ríkjum eins og Danmörku er engin hreyfing í þá átt. Frjáls sala á áfengi er einfaldlega mun eðlilegra ástand.
Svona mætti halda áfram og bera upp fleiri spurningar:
Ef hommar og lesbíur mættu giftast og eignast börn, væri ég fylgjandi því að svipta þau þeim réttindum?
Ef að 18 ára menn og konur mættu versla áfengi, mundi ég leggja til að þeim yrði það bannað?
Ef ekki væri rekið hér ríkissjónvarp, mundi ég leggja til að farið yrði út í slíkan rekstur?
Ef engin trú væri „opinber“ trú á Íslandi, mundi ég leggja til að einhver ein trú mundi hljóta slíka stöðu?
Ef landið mitt hefði forseta mundi ég vilja leggja til að það embætti yrði lagt niður og í staðinn tekið upp þjóðhöfðingjaembætti sem gengur í erfðir? (Á, sem betur fer, ekki við hérlendis)
Og bara svo að það sé ljóst að litla prófið mitt virki í báðar áttir, ef við hefðum ekkert almennilegt heilbrigðistryggingakerfi, mundi einhver leggja til að það yrði tekið upp? Þeir sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum geta séð að svo yrði, þótt andstæðingarnir séu álíka margir ef ekki fleiri en þeir sem fylgjandi eru. Raunar má sjá, af samanburði yfir Atlantshafið, að mun meiri sátt er um að hafa opinbert heilbrigðistryggingakerfi en að hafa það ekki.
Ég legg til að menn taki sig til og skoði stundum afstöðu sína til hlutanna út frá áður títtnefndri spurningu. Ég er ekki að segja að allir þurfi að komast að sömu niðurstöðu, en a.m.k. er gott fyrir þá að vita hvort afstaða þeirra mótist af einhverju öðru en ótta við breytingar.
Slíkt hefði t.d. geta forðað þeim sem vildu ekki leyfa bjórinn eða einkarekið útvarp frá töluverðri skömm.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021