Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt að hefja aðildarviðræður við Tyrkland og búist er við því að leiðtogar sambandsríkjanna staðfesti þá ákvörðun í desember næstkomandi. Ákvörðunin er umdeild og það skyldi engan undra því hún gæti í tímans rás stuðlað að breyttri heimsmynd.
Þrátt fyrir blendnar tilfinningar og jafnvel andstöðu heima fyrir hafa leiðtogar stærstu ríkja Evrópusambandssins gefið út að þeir styðji aðild Tyrklands að sambandinu. Ber það vott um mikla framsýni, að mati pistlahöfundar, og markar vonandi heillaskref fyrir mannkyn.
Það er auðvelt að vera andstæðingur aðildar Tyrklands að Evrópusambandinu. Fyrir það fyrsta er landið varla staðsett í Evrópu, þjóðarframleiðsla á íbúa töluvert undir þjóðarframleiðslu fætækustu ríkja sambandsins í dag og íbúar um 70 milljónir sem flestir eru múslimatrúar með aðrar hefðir en þorri íbúa Evrópusambandsins. Þá heyrast einnig sú lífseiga en hæpna röksemdafærsla að fái Tyrkir aðild muni þeir flæða yfir alla Evrópu og hirða störf af innfæddum. Það er því allt eins líklegt að innganga Tyrklands verði ekki þrautalaus.
Fái Tyrkland innöngu, sem gerist í fyrsta lagi eftir 2010, verður landið það næstfjölmennasta innan sambandsins á eftir Þýskalandi og verður samkvæmt stjórnskipun einnig það næstvaldamesta, nokkuð sem mörgum hrýs hugur við. En menn mega ekki eingöngu einblína á neikvæðu hliðarnar. Innganga Tyrklands í Evrópusambandið gæti líka reynst sambandinu vel. Stór og mikilvægur markaður myndi þannig opnast fyrir fyrirtæki Evrópusambandsins sem gæti hugsanlega greitt leið þeirra áfram inn í Mið-Austurlönd, bilið á milli hins kristna heims og íslamska gæti minnkað og stuðlað að sátt milli hins vestrænna og íslamskra gilda. Óheillavænlegri þróun væri þannig hugsanlega afstýrt.
Ef mál þróast hins vegar þannig að Evrópusambandið lokar fyrir aðild Tyrklands eru skilaboðin til hins íslamska heims skýr. Tyrkir munu þá væntanlega líta í austur eftir bandamönnum í framtíðinni frekar en í vestur.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009