Streptokokkakúrinn

Þórður Þórisson (nei, ekki ég!) missti, ef mark er takandi á auglýsingu í dagblöðum landsins, 4,3 kíló á aðeins tveimur dögum – þökk sé Hollywood kúrnum. Það er hins vegar ekkert merkilegt. Þórður Þórarinsson (já ég!) missti næstum tvöfalt fleiri kíló, reyndar á lengri tíma, þökk sé nýjum byltingarkenndum megrunarkúr – streptokokkakúrnum!

Þórður Þórisson (nei, ekki ég!) missti, ef mark er takandi á auglýsingu í dagblöðum landsins, 4,3 kíló á aðeins tveimur dögum – þökk sé Hollywood kúrnum. Það er hins vegar ekkert merkilegt. Þórður Þórarinsson (já ég!) missti næstum tvöfalt fleiri kíló, reyndar á lengri tíma, þökk sé nýjum byltingarkenndum megrunarkúr – streptokokkakúrnum!

Ég hef ekki prófað umræddan Hollywood kúr en sem áhugamaður um fljótvirka megrúnarkúra get ég mælt með öðrum. Ég er fullviss um að sá er síst verri en umræddur, háþróaður Hollywood kúr. Það skal tekið fram að þessum kúr fylgja nokkrar aukaverkanir og lesendum er bent á að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hyggjast leggja í hann.

Fyrir rétt rúmlega tveimur árum síðan ákvað ég að sýkja mig af streptókokkum. Umræddir kokkar eru bakteríur sem valda sárri hálsbólgu. Í mínu tilfelli tókst þetta svo vel upp að ég gat ekkert nærst í tvær vikur. Árangurinn af kúrnum var því sá að ég léttist um 7 kíló eða þar um bil! Tel ég þetta mun betri árangur en sambærilegir megrunarkúrar geta státað af. Hugsa að mittismálið hafi einnig skroppið saman um tommu eða tvær. Árangur kúrsins er því mjög góður en aukaverkanir eru nokkrar s.s. slen, slappleiki, hiti og beinverkir. Þessar aukaverkanir eru þó hjóm eitt miðað við árangurinn – 7 kíló! Eða u.þ.b. 10% af líkamsþyngd minni. Það mætti því ímynda sér að Gaui litli hefði getað misst hátt í 20 kíló í þessum kúr.

Annar kúr sem ég veit um og er talsvert stundaður af ungum háskólanemum er áfengiskúrinn. Hann gengur út að innbyrða kynstrin öll af fríu alkóhóli og snittum í vísindaferðum og bæta svo við eins og einni bjórkippu á eftir. Lokahnykkurinn er svo eitt staup af græna munkadrykknum Chartreusse á Grand Rokk. Er bókað að við þetta þjóti nokkur kíló af vökva, magasýrum og hálfmeltum mat úr iðrum viðkomandi á augabragði. Eflaust 1-2 kíló sem fjúka á ekki meira en kannski þremur klukkutímum!

Víkjum þá sjónum aftur að Hollywood. Megrunarkúr einn sem kenndur er við kvikmyndaborgina frægu er mikið auglýstur þessa dagana. Áðurnefndur nafni minn Þórisson er notaður sem fyrirmynd að vel heppnuðum kúr. Kúrinn gengur út á það að drekka appelsínusafa sem kostar fleiri þúsund krónur í tvo daga og neyta einskis annars á meðan. Hljómar skynsamlega? Skiptir líklega ekki máli þegar 4,3 kíló og 6 sentímetrar af mittismáli hverfa eins og dögg fyrir sólu. Hvað svo tekur við fylgir ekki sögunni. Fastlega má þó gera ráð fyrir því að kílóin jafnt sem sentímetrarnir komi jafnskjótt aftur enda óeðlilegt fyrir líkamann að nærast eingöngu á appelsínudjús í tvo daga.

Fyrir það fyrsta get ég ómögulega skilið hvernig það er hægt að missa 4,3 kg á aðeins tveimur dögum og í annan stað hvernig hægt er að halda því fram að þessi aðferð sé einhver sérstakur megrunarkúr? Ef ætlunin er að fara í skammtímamegrun af hverju er betra að drekka mörg þúsund króna appelsínudjús en t.a.m. að drekka Trópí og taka A- og B-vítamín töflur með?

Hvað um það, kannski er þetta háþróaður kúr af öllum helstu Hollywood stjörnum og læknum samtímans. Einhverra hluta vegna á ég þó bágt með að gleypa það hrátt. Ég dreg því þá ályktun að umræddur Hollywood kúr sé álíka skynsamur og streptokokkakúrinn minn, lái mér hver sem vill!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)