Ekki er allt sem sýnist í apótekinu …
|
Flest förum við reglulega í apótek til að kaupa tannkrem, magnyl, eða þá einhver lyf sem læknir hefur ávísað okkur. En í apótekinu má líka finna aðra hluti, svo sem náttúruleg þynnkumeðul, brennsluaukandi pillur, náttúrumeðul við appelsínuhúð og svefnaukandi efni í sama stíl. En eru þetta vörur sem eiga heima á hillum apóteka?
Um apótek gilda sérstakar reglur. Nauðsynlegt er að fá tilskilin leyfi til að reka apótek og þau fást ekki nema með því að sýna fram á að afgreiðslufólkið hafi þekkingu til að afgreiða þær vörur sem á boðstólnum eru. Ekki er heimilt að reka lyfjabúð nema þar séu að minnsta kosti tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu að jafnaði og nákvæmar reglur gilda um aðstöðu lyfjabúða. Ýmsar fleiri reglur gilda um apótek sem of langt mál væri að telja upp hér, enda er reglugerðin um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir tæplega 6000 orð.
Það er semsagt talsvert flóknara að stofna apótek en sjoppu. Því er örlítið sérstakt að þrátt fyrir allt það reglufargan sem gildir um apótek, virðist ekki vera sérstakt bann við því að alls kyns drasl sem aldrei hefur verið sýnt fram á að virki, skuli vera selt samhliða lyfjum farið hafa í gegnum ítarlegar rannsóknir með tilheyrandi kostnaði.
Til hliðar við Treo, þrælprófað verkjastillandi lyf sem hentar vel við þynnku, er seldur þynnkubaninn „Morning Fit“. Þessi vara inniheldur steinefni sem eiga að „koma jafnvægi á líkamsstarfssemina“ eftir fyllerí.
Pistlahöfundur spurði eitt sinn lyfjafræðing hvort þetta Morning Fit virkaði yfirhöfuð. „Sumum finnst það“, var svarið. Ólíklegt er að apótekið fengi að selja getnaðarvarnarpillur vegna þess að „sumum finnst þær virka“. Ekki gekk heldur vel að fá upp úr honum hvernig hægt er að aðgreina vörur sem innihalda sannanlega virk efni og vörur sem ekkert er vitað um.
Það er ekki markmiðið með þessum pistli að gera lítið úr náttúrulyfjum. Þau eru góð og gild og þau eiga svo sannarlega að vera til sölu – í náttúrulækningabúðum. Það skal ekki lagt mat á það hér hvort rétt sé að bæta enn við reglugerðarlanglokuna sem apótekum er gert að starfa eftir. En það er í það minnsta umhugsunarefni hvort klausa sem takmarkar heimild apótekara til að pranga inn á fólk vörum sem virðast vera lyf en eru það ekki, eigi ekki allt eins heima þar og klausur á borð við eftirfarandi dæmi: „Gæta skal þess að staðsetning síma, tölva og bréfasíma auðveldi vinnugang en sé ekki hamlandi.“
Án tillits til þess ættu apótekarar að sjá sóma sinn í að hafa ekki svona vörur á borðum, eða í það minnsta aðgreina þær rækilega frá öðrum vörum apóteksins.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020