Samhliða forsetakosningunum nú í nóvember munu íbúar í Colorado kjósa um athyglisverða breytingu á úthlutun kjörmanna í fylkinu. Tillagan gerir ráð fyrir að kjörmönnum fylkisins verði úthlutað með hlutfallskosningu.
Kosningakerfi vestanhafs kemur okkur hinum furðulega fyrir sjónir. Kosningarnar eru í raun óbeinar. Sá sem vinnur tiltekið fylki fær alla kjörmenn þess. Það eru síðan kjörmennirnir sem kjósa forsetann. Kerfið getur t.d. leitt til þess að sá sem fær fleiri atkvæði á landsvísu, tapi samt kosningunum, líkt og gerðist seinast.
Færri vita það hins vegar að það er ekkert í stjórnarskránni sem segir að þetta „allt eða ekkert“ kerfi þurfi að vera við lýði. Þar segir einfaldlega að þessi úthlutun sé í höndum fylkjanna. Nýlega hafa Nebraska og Maine breytt lögum sínum þannig að hvert einmenningskjördæmi kjósi sinn kjörmann og þeir tveir kjörmenn sem eftir eru koma í hlut þess vinnur fylkið.
Í raun er það raunar athyglisverð staðreynd að hægt væri að koma á einfaldri meirihlutakosningu innan ramma núverandi stjórnarskrár. Kjörmenn ellefu fjölmennustu fylkjanna duga samanlagt til að kjósa forseta. Ef þau fylki mundu öll úthluta sínum kjörmönnum til þess frambjóðanda sem sigrar á landsvísu væri í reynd búið að breyta kerfinu í átt til þess sem það er hér á landi.
Tökum eftir því einnig að ellefu stærstu fylkin gætu ákveðið að úthluta sínum kjörmönnum í samræmi við vilja meirihlutans í þeim fylkjum samanlagt. Þar með væru íbúar hinna fylkjanna orðnir algjörlega atkvæðalausir, og það í fullu samræmi við stjórnarskrána.
Slík atburðarás er hins vegar ólíkleg. Það eru flokkarnir tveir en ekki fylkin sem eru aðalleikarar á sviði bandarískra stjórnmála. Stjórnir hvers fylkis sjá sér lítinn hag í því að þynna út völd fylkisins og minnka möguleika síns frambjóðenda á sigri. Það er afar ólíklegt að Demokratar í Californíu leggi til einhverjar breytingar á kerfi sem tryggir þeim alla þingmenn fylkisins.
Andmælendur tillögunnar í Colorado hafa bent á að með breytingunni verði hún samþykkt muni menn bítast um eitt baráttusæti í stað átta eða níu áður. Þannig muni áhugi frambjóðenda á Colorado minnka. Repúblíkanar stjórna í Colorado og búast við að vinna fylkið eins og síðast. Hefðu umrædd lög verið í gildi þá hefði Gore orðið forseti.
Það skemmtilega við tillöguna er að hún á að taka gildi strax, en ekki eftir fjögur ár. Verði hún samþykkt er líklegt að reyna muni á nýju lögin fyrir dómstólum. Ef tæpt verður geta 4 kjörmenn skipt sköpin í baráttunni um Hvíta húsið. Það gæti því jafnvel farið svo að úrslitin ráðist, aftur, í Hæstarétti Bandaríkjanna.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021