Mér er annt um málfrelsi og flokka rétt hvers og eins til að tjá sig og skoðanir sínar meðal grundvallarmannréttinda. Ég trúi á frelsi einstaklingsins til orðs og æðis og hið góða í mannfólkinu. Vegna þessa þykir mér friðhelgi einkalífs hvers og eins mjög dýrmætt. Frelsi okkar til orða og verka fylgir sú ábyrgð að skaða ekki aðra.
Víst eru einhverjir sem telja þetta einfeldningslegar skoðanir, réttur fólks verði einungis tryggður með skýrum boðum og bönnum. Þessi trú mín á að fólk meini yfirhöfuð vel verður stöðugt fyrir árásum. Væru hryðjuverk og ofbeldisglæpir til ef ég hefði rétt fyrir mér?
Eitt óhuggulegasta birtingarform slíkra árása eru tilefnislausar ofbeldisárásir á borð við leyniskyttumorðin í kringum Washington D.C. og nauðganir. Önnur mynd slíkra árása er þó minna í umræðu og lymskulegari, en ekki endilega skárri. Mannorðsmorð eru nefnilega orðin gróðavænlegur bransi. Meintir blaða- og fréttamenn vega fólk úr launsátri en huga hvorki að forsögu eða afleiðingu.
Undanfarin ár hefur Séð og heyrt séð um að höfða til blóðþyrstra Íslendinga en hefur nú fallið í skuggann af samkeppni, eins og Saddam af Hitler. DV er nýjasta málgagn íslenskra mannorðsmorðingja. Samkvæmt þeim viðtölum sem ég hef séð við ritstjóra blaðsins, segjast þeir hafa samfélagslega skyldu til að segja frá heiminum eins og hann er. Verði að birta þær fréttir sem þeim berast. Ég veit ekki hvort manngreyin trúa þessu sjálfir, en í gegnum þennan þvætting ætti hver heilvita maður að sjá.
Myndbirtingar og fréttaflutningur blaðsins af handrukkurum hafa verið til umfjöllunar undanfarið. Fólki kann að finnast það í góðu lagi, tilgangurinn helgi meðalið. Vissulega er nauðsynlegt að taka á slíkum málum, enda eru þau verulega ógeðfelld. Ég ætla ekki að ræða hér mynd- og nafnabirtingar á dæmdum mönnum, en þegar aðeins er um grunaða menn að ræða er slíkt í besta falli á sama siðferðisplani og handrukkun.
Ég les ekki DV en í verslunum kemst ég ekki hjá því að reka augun í forsíðu blaðsins. Um daginn var á forsíðunni stór mynd af manni með fyrirsögn um að jógakennari hafi misst stjórn á sér á skrifstofu sýslumanns og verið fylgt út af lögreglumanni.
Í fyrsta lagi má sjá að þegar fjölmiðill getur ekki haft merkilegri frétt á forsíðunni er lítið í hann spunnið. Í öðru lagi er þetta ekkert annað en árás á mannorð þessa einstaklings. Ekki var um það talað á forsíðunni að þessi sami maður hafi sigrast á mjög slæmu þunglyndi og síðan helgað líf sitt því að hjálpa öðrum upp úr erfiðleikum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hann hefur bjargað mannslífum með námskeiðum sínum sem sérsaklega hafa verið sniðin fólki með þunglyndi og kvíða. Það þótti ritstjórunum ekki fréttnæmt, heldur aðeins að jógakennari hafi tryllst – það er jú svoldið fyndið ekki satt?
Lágt sjálfsmat, þunglyndi, kvíði og ærumissir eða ótti við flekkað mannorð hafa orsakað mörg dauðsföll. Á Íslandi falla fleiri fyrir eigin hendi en í bílslysum. Ég held að opinber dreifing á rógi og kjaftasögum og einbeittar og ítrekaðar tilraunir til mannorðsmorða, á borð við það sem sést í DV geti ekki orðið til þess að breyta þessu mynstri.
Þegar höfðað er til öfundar í garð náungans og alið á óförum fólks fæ ég ekki séð að neitt annað búi að baki en einhverskonar heimska. Að ætla sér að selja blöð, græða á óförum annarra. Þótt eðlilega hugsi maður hvort það hljóti ekki að vera mannvonska að nota þroskaheft fólk og útúrsnúninga til að búa til fréttir, þá trúi ég því ekki í minni barnslegu einfeldni.
Það má vera að ég hafi með því að tjá þessar skoðanir mínar hafi ég farið niður á sama plan og ritstjórar DV. Það vona ég þó ekki, því það var ekki ætlunin. Ég er ekki viss um að illt verði aðeins rekið út með illu. Ég verð að vona að við nýtum atkvæðið sem við höfum í veskinu okkar til að reyna að breyta þjóðfélaginu til góðs með að kaupa ekki DV. Líklega er það eina leiðin til að breyta ritstjórnarstefnu þessa blaðs sem er svo lífseigt að það minnir helst á notaðan klósettpappír sem festist undir skósóla.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021