Pétur Blöndal hefur nú lagt fram frumvarp um afnám forsetaembættisins. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á stjórnarskránni eru flestar í anda þeirrar stjórnsýsluhefðar sem hefur skapast hér á landi, t.d. að forsætisráðherra tilnefni ráðherra o.s.frv. (eða hafði áður en til neitunar forsetans á fjölmiðlalögunum kom).
Sjálfur mundi ég ekki gráta það þótt forsetaembættið yrði lagt niður. Á sama hátt og tilvera þess nú fer ekki sérstaklega í taugarnar á mér. Ég er fylgjandi þeirri hugmynd að gera færa stjórnarskrána nær raunveruleiknanum, sem mér sýnist vera hugmyndin með áðurnefndu frumvarpi. Hins vegar á þetta ekki að snúast um að spara fjármuni enda er ólíklegt að slíkt verði raunin ef svo ólíklega yrði til að hugmyndirnar yrðu að veruleika.
Stór hluti af þeim fjármunum sem fara í að reka forsetaembættið mundu ekki strikast út þótt embættið yrði lagt niður. Áfram þyrfti að halda Bessastöðum við, bjóða hinum og þessum í heimsókn. Áfram þyrfti einhver til að gróðursetja tré og opna meðferðarheimili. Þótt vinnan mundi dreifast á marga einstaklinga er ekki víst að heildarumfang hennar mundi minnka.
Það er full vinna að vera forseti. Langstærstur hluti hennar er auðvitað ekki að ákveða hvaða frumvörp verða að lögum eða annað eins. Forseti Íslands þarf sífellt að vera viðstaddur, opnanir, ráðstefnur, boð; vera verndari íþróttaviðburða og safnana í þágu góðra málefna. Dagskrá hans er þéttsetinn. Forsetinn gegnir, á þann hátt, svipuðu hlutverki og, til dæmis, forsetafrú Bandaríkjanna.
Það er alveg ljóst að áfram verðum þörf á embættismönnum sem sinnt geta hátíðadagskrám þó embættið sem slíkt verði lagt niður. Áfram þarf einhver að vera viðstaddur opnun nýrra leikskóla og sinna útlönskum börnum þegar þau heimsækja jafnaldra sína hér á landi.
Menn hafa nefnt þann möguleika í kringum afnám forsetaembættisins að þingforseti taki við þessu hlutverki forsetans. Það eru ákveðnir ókostir við slíka hugmynd. Til dæmis er það ekki heppilegt að yfirmaður einnar stoðar ríkisvaldsins þurfi of mikið að sinna slíkum verkum. Slíkt hlýtur óneitanlega að koma niður á stjórnun þingsins. Að því leiti er þægilegt að hafa sérstakt puntembætti sem þarf einungis að sinna slíkri formalískri vitleysu.
Framkomnar tillögur um afnám forsetaembættis eru athyglisverðar en eiga auðvitað engan möguleika. Hins vegar væri það gott ef fleiri myndu setja fram tillögur til að breytinga á Stjórnarskránni þannnig að innihald hennar mundi endurspegla íslenskan veruleika en ekki aðeins vera útgangspunktur fyrir umræðu meðal sérfræðinga í stjórnskipunarmálum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021