Fyrir nokkrum árum þótti óeðlilegt að drekka á almannafæri. Það gerðu bara rónar, laumurónar og fólk í ástarsorg. Böll voru hins vegar ekki almannafæri, þar þótti ófínt að lifa til enda og merki um slæmt djamm. Eftir að bjórinn var leyfður breyttist þetta lítillega. Einn kaldur í hádeginu varð skyndilega minna mál og almenningur áttaði sig á því að léttvín væri ekki brennivín í gosi. Samkvæmt opinberum tölum hafa drykkjusiðir Íslendinga breyst, séniver er á hröðu undanhaldi.
Margir vilja halda því fram að Íslendingar hafi lært að drekka áfengi. Það skipti ekki máli þótt áfengissala aukist enda dreifist drykkjan á fleiri daga. Nú getur það vel verið að ég sé svona einfaldur en hljómar þetta ekki eins og fullkomin afsökun? Er það þá bara allt í lagi að við dreifum drykkjunni á 7 daga í stað 2 áður? Getur verið að skápaalkarnir hafi tekið yfir áfengisumræðuna, að hin hefðbundna venja sé búin til af drykkjurútum?
Miðbær Reykjavíkur hefur lítið breyst að minnsta kosti. Barirnir eru fullir fram eftir morgni þegar rúllandi viðskiptavinum er ýtt út með valdi. Þá tekur við örvæntingarfull leit að bar sem er opinn eða næsta partýi. Síðan er sofið í örfáa tíma áður en þynnkunni er stútað með bjór og snafsi. Laugardagskvöldið líður á sama hátt nema þá bætast venjulega við ástarflækjur frá kvöldinu áður.
Og þetta þykir öllum fullkomnlega eðlilegt.
Ef til vill er það einmitt vegna þessarar sífelldu makaleitar sem stunduð er á öldurhúsunum. Fólk horfir á annað fólk yfir barborðið, nær augnsambandi eða ekki. Brosir. Nær saman, talar, dansar og kyssist. Fer heim, saman eða í sitt hvoru lagi. Morguninn eftir vandræðalegur með tilheyrandi „við heyrumst bara“ og álíka kveðjum. Þá bölvar maður áfenginu og heitir því að drekka aldrei aftur, að minnsta kosti ekki þar til um kvöldið.
Hitt er þó líka þekkt að fólk finni hina einu og sönnu ást. Þessi örfáu skipti þegar hin manneskja virðist gallalaus, þegar morguninn eftir verður ekki vandræðalegur. Þá verður þetta allt þess virði, öll vandræðin og öll mistökin. Lesendum er því bent á að ganga um gleðinnar dyr um helgina, hvort sem það er hægt eða hratt, með eða án áfengis. Þegar öllu er á botninn hvolft á fólk þá ekki að njóta lífsins á meðan það er ungt? Er þetta ekki bara spurning um einn kaldann?
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005