En þar með er ekki öll sagan sögð. Það skiptir nefnilega miklu máli hvar þú býrð, þ.e. í dreifbýli eða smærri bæjum annars vegar, eða stórborgum hins vegar. Verðlag í stórborgunum er mun hærra og þá sérstaklega á húsnæði. Fyrir íslenska námsmenn sem stunda sitt nám í stórborgum Bandaríkjanna duga full námslán í sumum tilfellum rétt fyrir leigu á húsnæði og gjöldum tengdum því. Ástandið er skárra í dreifbýlinu þar sem undirritaður dvelur en leiguverðið er samt sem áður ekki mikið lægra en heima.
Eitt af því sem maður þarf að varast hér er að fyrirtækin eru ansi útsmogin í því að klína aukagjöldum á vörur sínar; gjöldum sem oft skjóta ekki upp kollinum fyrr en reikningur berst eða þú ert kominn á kassann í matvörubúðinni. Hér eru til að mynda öll verð gefin upp án skatta. Í matvörubúðum, bætist yfirleitt aðeins söluskattur við verðið, en hann er í á bilinu fjögur til sex prósent hér í Virginiu-fylki þar sem ég dvel. Á veitingastöðum má ekki gleyma þjórfénu svo allir verði nú glaðir eftir (vonandi) góða máltíð. Leiðbeinandi þjórfé er 10-15% af reikningsupphæð, þannig að 10 dollara máltíðin er fljót að skjótast upp í ríflega 12 dollara með sköttunum og þjórfé.
Þjónustufyrirtækin er hins vegar allra verst í aukagjaldabransanum. Símafyrirtækið leggur á tvö til fimm aukagjöld fyrir utan skattana sem því er skylt að leggja við. Ef þér verður á að hringja út fyrir svæðið sem áskriftin þín dekkar, þá fyrst byrjar ballið. Kapal fyrirtækið býður þér frábært inngöngutilboð, sex mánuðir á verði sem er 12 dollurum lægra en venjulegt mánaðargjald, en rukkar þig svo um 30 dollara fyrir að setja draslið upp og étur þar með upp megnið af sparnaðinum. Sum þessi aukagjöld eiga rétt á sér, en hins vegar er með öllu óþolandi þegar uppgefnu verði fylgja aukagjöld á þjónustu eða búnaði sem nauðsynlega þarf að fylgja svo unnt sé að nýta þjónustuna. Þetta er því eins og að selja manni reiðhjól en rukka svo sérstaklega fyrir keðjuna eða hjólin. Dæmi: Þú kaupir áskrift að GSM þjónustu en þarft svo að borga gjald fyrir að láta virkja símann/símanúmerið (activation fee).
Matvörubúðirnar eru margar hverjar ansi svæsnar í sínum brellum. “Kauptu 4 pakka fyrir 5 dollara”. “Jasko, þetta er flott tilboð” hugsar maður með sér. “En ég þarf reyndar ekki á tveimur og hálfu kílói af kexi að halda. Einn pakki myndi duga”. Í dæmum sem þessu, er það iðulega tilfellið að þú getur keypt einn pakka fyrir sama verð og fjóra. Búðirnar setja tilboðið eingöngu upp með þessum hætti til að villa um fyrir neytendum og hvetja þá til að kaupa meira magn, þar sem því meira magn sem neytendur kaupa, þeim mun meiri magnafslátt frá birgjum geta búðirnar fengið. Flestar stærstu matvörukeðjurnar eru einnig með “vildarvinakort” sem eiga að veita þér afslátt að ýmsum vörum innan þeirra. Það er hins vegar oft þannig að rétta verðið, er það verð sem þú færð með því að nota kortið. Þeir sem ekki nota kortin sín, eða gleyma þeim heima, borga á móti of hátt verð fyrir vöruna.
Megintilgangurinn með þessum kortum, er hins vegar ekki að veita þér afslátt af því að þú ert svo frábær viðskiptavinur, heldur að fylgjast með því hvað þú kaupir. Það gefur verslununum m.a. kost á því að senda þér sérsniðin tilboð sem taka mið af því sem þú hefur áður keypt. Þessar upplýsingar eru þeim gríðarlega mikils virði í beinni markaðssetningu gagnvart sínum kúnnum, en þetta býður líka upp á misnotkun eins og margir hafa bent á. Frægasta dæmið um misnotkun, er þegar upp komast að þekkt vefverslun birti sumum viðskiptavinum sínum hærra verð á ákveðnum hlutum byggt á því hvaða vörur þeir höfðu keypt áður.
Það getur einnig krafist sérstakrar lagni að rýna tilboð og afsláttarkjör sem boðið er upp á. Iðulega þarftu að fara í gegnum talsverða skriffinnsku og senda kvittanir hingað og þangað til þess að “innheimta” afsláttinn. Með öðrum orðum, þú borgar fyrir vöruna, en framleiðandinn endurgreiðir þér svo afsláttinn þegar þú ert búinn að senda öll tilheyrandi gögn. Oftast tekur sex til átta vikur að fá afsláttinn til baka, auk þess sem þú átt á hættu að tapa honum ef þú sendir ekki kvittanir og eyðublöð til hlutaðeigandi aðila innan ákveðins tíma.
Það virðist almennt vera lenska á markaði eins og hér í Bandaríkjunum að vera með ógegnsætt verð á vörum og þjónustu. Þetta gerir allan verðsamanburð þyngri í vöfum og í sumum tilfellum er nánast ómögulegt að vita hvað þú munt greiða að lokum, án þess að hreinlega kaupa vöruna eða þjónustuna. Þeim sem standa í verslunar- og þjónusturekstri til varnar, má þó segja að það að leggja skattinn ofan á “við kassann” sýnir neytendum svo ekki verður um villst hvað ríkið er að taka til sín.
Sama hvað má segja um dýrtíðina á Íslandi, þá getum við þó í flestum tilfellum sagt (ennþá) að verðið sem við fáum uppgefið er það sem við þurfum að borga. Vissulega er það pirrandi að þurfa að borga hátt verð fyrir vöru, en það er ekki síður pirrandi að telja sig vera að kaupa vöru fyrir eitt verð, en þurfa svo að borga umtalsvert meira.
- Hitamál vikunnar - 11. ágúst 2007
- Allt vitlaust á vellinum - 12. júní 2007
- Stjórnarjafnan - 4. mars 2007