Þegar kemur að því að skilgreina stjórnmálaflokka er hætt við því að fljótlega leiðist menn út í kreddur sem stafa af fordómum og fáfræði. Þannig væri auðvelt að skilgreina unga framsóknarmenn sem sveitarómantíska ungtemplara í anda Hriflu-Jónasar þótt sannleikurinn sé eflaust allt annar.
Stundum er best að hafa í huga hvernig flokkar skilgreina sig sjálfir fremur en hvernig andstæðingar þeirra gera það. Flokkar hafa yfirleitt einhverja meginstefnu eða hugmyndafræði sem þeir fylgja þótt íslenskir flokkar hverfi yfirleitt frá hugmyndafræðinni ef þeim virðist það vera betri leikur. Svo gerist það auðvitað að verk sem í upphafi voru í samræmi við hugmyndafræði flokkanna breytast í meðförum embættismanna og enda sem hrópandi mótsögn við upphaflegar áætlanir.
Við lendum því í töluverðum vandræðum þegar kemur að þessum skilgreiningum, sérstaklega þar sem lýsingar stuðningsmanna ákveðins flokks eru allt aðrar en lýsingar andstæðinganna. Það kom því skemmtilega á óvart að sjá blað sem ungir Vinstri grænir gáfu út fyrir stuttu síðan en heiti þessa pistils er einmitt fyrirsögnin á þessu blaði. Vinstri grænir hafa nefnilega í gegnum tíðina verið ásakaðir um að vera á móti öllu hvort sem það er NATO, rafmagn eða fyrirtæki.
Nú getum við þó auðveldlega haldið því fram að skilgreiningin á Vinstri grænum sé rétt því fyrirsögn blaðsins er svarað neðst á forsíðunni. Fyrst kemur skemmtileg saga um fýlustrump en þar fyrir neðan er spurningunni svarað með orðunum ,,heldur betur”. Við getum því dregið þá ályktun að ungir Vinstri grænir séu ekki einungis meðvitaðir um þann stimpil sem þeir hafa á sér heldur eru þeir beinlínis stoltir af honum. Við erum heldur betur fúl á móti segja þau og kosturinn við það er sá að nú vita allir hvar þau standa. Vonandi taka fleiri ungliðahreyfingar upp á því að gefa út blöð þar sem við hin getum séð strax á forsíðunni hvaða hugmyndafræði þær aðhyllast. Sjálfum duttu mér í hug nokkrar fyrirsagnir sem lesendur geta dundað sér við að heimfæra á stjórnmálaflokka.
Glöð á móti
Á móti ef við græðum á því
Á móti fjöldafylgi
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005