Maður spáir kannski ekki ýkja mikið í því, né heldur finnur tilfinnanlega fyrir því hvað lyktarskynið spilar mikilvægt hlutverk í daglegu lífi fyrr en maður missir það. T.d. vegna kvefs. Auk þess að gegna mikilvægu hlutverki sem skynfæri sem setur lykt í samhengi við aðra umhverfisþætti sem skynfæri okkar skynja t.d. til að meta umhverfið, hættur og annað, þá er lyktarskynið okkur líka til yndis og ánægjuauka. Sbr. lyktir af góðum mat, blómum, ástvinum. Lyktarskynið gefur einnig bragðlaukunum byr undir báða vængi og stuðla þannig að því að skapa þau brögð sem við þekkjum. Hver kannast ekki við að vera kvefaður með stíflað nef og vera um leið rændur því að njóta góðs matar.
Lykt sem slík hefur lengi verið ráðgáta enda ekki hægt að mæla lykt á sama hátt og hægt er að mæla það sem t.d. augu og eyru nema, hljóð og ljós. Til þess er hægt að nota ákveðinn búnað. Til þess að mæla eða meta lykt er einungis hægt að skoða málið út frá skynjun lífvera.
Í gær var tveimur vísindamönnum, þeim Richard Axel og Lindu Buck veitt Nóbelsverðlaun á sviði læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á lyktarnemum í nefi og uppbyggingu þefskynsins í mönnum. Á síðastliðnum 15 árum hafa þau starfað saman og í sitt hvoru lagi að því að kortleggja nákvæmlega hvernig það er sem við skynjum lykt, þ.e. hvernig nefið bindur efnasambönd sem lykta og sendir boð til heilans þar sem þau eru síðan skynjuð sem ákveðin lykt.
Árið 1991 bar teymið kennsl á um 1000 gen í rottum sem hægt var að tengja við lykt. Þar með var afhjúpaður sá leyndardómur sem hafði hvílt yfir ótrúlegri getu okkar til að greina milli svona margra lykta.
Í nefholinu er að finna á aðeins 5 fersentimetra svæði um 50 milljónir lyktarnema. Margir þeirra eru eins og er talið að um 3000 gerðir sé að ræða. Hver og ein gerð viðtakanna er sértæk fyrir ákveðna gerð sameindar, eða sameindahluta. T.d. nemur ein gerðin aðeins súlfathópa og binst þeim. Hinsvegar bera margar gerðir sameinda einn eða fleiri súlfathópa, þannig að einn nemi getur skynjað margar gerðir sameinda. Sömuleiðis getur ein sameind örvað margar gerðir lyktarnema, allt eftir fjölbreytileika þeirra sameindahópa sem hún er samsett af.
Fjölbreytileiki lyktarnemanna að viðbættum eiginleikum þeirra sameinda sem þeir bindast búa síðan til það breiða róf af boðum sem heilinn meðtekur sem ákveðið lyktar ‘fingrafar’, en talið er að spendýraheilinn þekki allt að 10.000 einstakar lyktarsameindir.
Þegar boðin eru komin til heilans fara þau áfram um u.þ.b. 2000 taugahnoður (glomerulus) í lyktarklumbu heilans, þar sem að lyktarboðin eru að lokum skyjnuð, en hver taugahnoða tekur aðeins á móti boðum frá einum lyktarnema. Enn aðrar frumur (mitral cells) taka síðan við boðunum frá taugahnoðunum og umbreyta þeim í þá skynjun sem við þekkjum hverja einstaka lykt fyrir að vera.
Þau Axel og Buck fengu fyrir þessar uppgötvanir sínar ekki aðeins nasaþefinn af Nóbel heldur verðlaunin sjálf. Þau eru auðvitað vel að þeim komin, en þess má geta að rannsóknir þeirra á lyktarskyni leiddu líka af sér fjölmargar uppgötvanir sem snúa að hinum skynfærunum, sér í lagi bragðskyni. Þeir sem hafa áhuga á nánari útlistun á rannsóknum þeirra er bent á samantekt og yfirlitsmynd hér
Heimildir og ítarefni:
Vísindavefur Háskóla Íslands
New Scientist
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007