Eitt af því sem andstæðingar frjálsra viðskipta með landbúnaðarvörur og afnám landbúnaðarstyrkja spyrja oft fylgismenn slíkrar stefnu er: Við hvað eiga bændur og þeir sem í dag hafa atvinnu af því að þjónusta landbúnaðinn að vinna ef fótunum er kippt undan íslenskum landbúnaði?
Sumir sem spyrja þessarar spurningar eru haldnir þeirri villutrú að störf séu takmörkuð auðlind. Þeir hafa af því áhyggjur að ef störf í landbúnaði tapast muni það leiða til aukins atvinnuleysis þar sem færri störf eru eftir í landinu. Þeir sem hafa slíkar áhyggjur eru jafnframt oft á móti tækniframförum sem leiða til þess að störf tapast, svo sem dráttarvélum og mjaltarvélum í landbúnaði, frystitogurum í sjávarútvegi og netvæðingu í bankakerfinu. Þeir styðja hugmyndir um að stytta vinnuvikuna til þess að dreyfa vinnunni á fleira fólk. Þeir óttast jafnframt innflytjendur sem stela vinnu frá innfæddum og höfðu á tímabili megna óbeit á því að konur skildu vera að stela vinnu af körlum. Og þeir sem eru verst haldnir af þessum hugmyndum hafa af því áhyggjur að allar tækniframfarirnar og allt viðskiptafrelsið sem dynur yfir þjóðfélagið um þessar mundir muni til langframa leiða til þess að atvinnuleysi aukist stórkostlega þar til enginn hefur lengur neina atvinnu.
Hugmyndin um að atvinna sé takmörkuð auðlind er vitaskuld algerlega ónýt hagfræði. Það er ótrúlegt að þessi hugmynd skuli enn eiga sér jafn marga fylgismenn og raun ber vitni. Hvernig má það vera að fólk átti sig ekki á því að þrátt fyrir rúmlega 200 ár af linnulausum tækniframförum hefur atvinnuleysi ekkert aukist. Í dag vinna færri en einn af hverjum 20 Íslendinga við landbúnað. Fyrir 200 árum unnu fleiri en 19 af hverjum 20 við landbúnað. Samt hefur atvinnuleysi ekkert aukist. Á síðustu 50 árum hefur atvinnuþátttaka kvenna margfaldast. En samt hefur atvinnuleysi karla ekkert aukist. Og svona mætti lengi telja.
Þrátt fyrir það að 200 ár af stöðugum framförum hafi ekki leitt til aukins atvinnuleysis er samt sem áður erfitt að sannfæra fólk um það að þróunin í dag muni á sama hátt ekki leiða til aukins atvinnuleysis til lengri tíma. Alveg eins og sá sem reyndi að svara þessari spurningu fyrir 50 árum gat ekki séð fyrir að árið 2000 myndu þúsundir Íslendinga vinna við hugbúnaðargerð, ferðaþjónustu og erfðarannsóknir, getum við í dag ekki séð fyrir hverjir framtíðaratvinnuvegir þjóðarinnar verða. Reynsla síðustu 200 ára hefur hins vegar kennt okkur svo ekki verður um villst að tækniframfarir, frjáls viðskipti og afnám styrkja munu ekki hafa aukið atvinnuleysi í för með sér til lengri tíma.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009