Ísland er ekki stórt land og þjóðin er fámenn. Okkur hefur vegnað vel þrátt fyrir fámennið, óblítt veðurfar og einangraða legu landsins. Stundum er fámennið kostur eins og menn þekkja. En fámennið getur líka reynst okkur erfitt og búið til vandamál sem flestar aðrar þjóðir ættu mun auðveldara með að leysa. Stórt slys þar sem margir slasast er þannig vandamál.
Um helgina var haldin umfangsmikil flugslysaæfing. Æfingar sem þessi eru haldnar á nokkra ára fresti til þess að þjálfa viðbrögð við aðstæðum sem við þurfum sem betur fer sjaldan að takast á við. Að þessu sinni var æfingin viðamikil enda komu að henni á sjötta hundrað manns auk þess sem Landspítalinn tók í fyrsta sinn fullan þátt í henni. Æfð var ný neyðaráætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll. Á svona æfingum kemur undantekningarlaust eitthvað í ljós sem þar að laga, læra af og færa til betri vegar áður en það reynir á það í alvörunni.
Í framhaldi af æfingu helgarinnar er eðlilegt að leiða hugann að getu spítalanna til að bregðast við hópslysum í almennu samhengi án þess þó að tengja þær vangaveltur sérstaklega við æfingu helgarinnar.
Í ljósi þess hversu fámenn við erum ætti það ef til vill ekki að koma á óvart að getan að sinna mörgum sjúklingum samtímis sé lítil. Íslendingum hættir hins vegar til að hugsa eins og við séum stórþjóð auk þess sem það er greipt inn í þjóðarsálina að hlutirnir reddist á endanum. Hvort tveggja að telja sér trú um að bolmagn okkar sé meira en það er og að vona að hlutirnir leysist af sjálfu sér er ekki líklegt til árangurs.
Geta sjúkrahúsanna til að fást við alvarleg slys er ef til vill minni en marga grunar. Til dæmis er einungis aðstaða fyrir hendi að sinna einum sjúklingi með alvarleg brunasár á Íslandi. Á Landspítalanum við Hringbraut stærsta sjúkrahúsi landsins eru 8 skurðstofur að nafninu til mis vel búnar þó. Það þarf ekki fjörugt hugmyndaflug til að ímynda sér aðstæður þar sem fleiri en einn brennist illa eða fleiri en 8 á sjúkrahúsinu þurfi á aðgerð halda í einu.
Þrátt fyrir takmarkaða aðstöðu er ekki víst að hún sem slík verði takmarkandi þátturinn beri stórslys að höndum. Sérhæfðan mannskap þarf til að sinna þeim slösuðu. Vel er hægt að ímynda sér aðstæður þar sem takmarkandi þátturinn verði skortur á sérfræðimenntuðu starfsfólki.
Aðstæður hér á landi eru eðli máls samkvæmt talsvert frábrugðnar því sem gerist víða annars staðar. Víðast hvar er hægt að dreifa álaginu á mörg nálæg sjúkrahús. Það er mun erfiðara hér einfaldlega vegna þess hversu langt er í næstu sjúkrahús utan landssteinanna.
Þörfin fyrir hlutfallslega meiri viðbúnað hér stafar fyrst og fremst af einangraðri legu landsins en líka að einhverju leiti af þeirri staðreynd að við búum á landi þar sem hætta á náttúruhamförum er meiri en víðast hvar annars staðar.
Það er síður en svo augljóst að því takmarkaða fjármagni sem við verjum til heilbrigðismála sé best varið með því að auka getu okkar til að takast á við stórslys. Hugsanlega er því fjármagni betur varið á annan hátt. En hvað sem því líður þá er það mikilvægt að gera sér grein fyrir því að geta spítalanna til að sinna mörgum slösuðum getur orðið takmarkandi þátturinn þegar stórt slys ber að höndum. Það virðist því vera til lítils að gera áætlanir sem byggja á því að koma slösuðum sem hraðast á spítala ef þar tekur svo ekkert við.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004