New York, Kalifornía, Írland, Noregur og bráðum Svíþjóð eru meðal þeirra sem lagt hafa bann við reykingum á veitingarhúsum og börum. Umræða um þessháttar bann hér á landi hefur aukist í kjölfarið og Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, hefur sagt að hann stefni á að leggja fram frumvarp um slíkt bann á haustþingi. Fram hafa komið í umræðuna mörg góð rök gegn slíku banni, flest með vísan í frelsi einstaklinga til athafna og frelsi veitingahúsaeigenda til setja reglur í eigin húsnæði. Þessi rök eru góð og gild en hér á eftir verður fjallað um rök sem styðja reykingabann og vega mögulega á móti þeim fyrri.
Óbeinar reykingar valda sjúkdómum
Læknirinn og prófessorinn Jonathan Samet sagði eftirfarandi þegar hann hélt erindi fyrir borgarstjórn New York borgar þegar reykingabann var þar á dagskrá:
„Nú er svo komið að engin rökræða er lengur meðal vísindamanna um sjúkdómsvaldandi áhrif óbeinna reykinga.“ (e. „There is no longer debate among scientists on the causation of disease by secondhand smoke.“)
Þessi niðurstaða er studd með fjölda vísindagreina eins og kemur fram meðal annars í nýlegri skýrslu Alþjóðlegu stofnunarinnar um krabbameinsrannsóknir(IARC) og skýrslu Bandarísku krabbameinsstofnunarinnar (NCI) sem lög var til grundvallar reykingabanni í Kaliforníu.
Reykingabann á veitingahúsum og börum
Lagasetning í vestrænum ríkjum hefur almennt (að mestu leyti) fylgt þeirri grundvallarreglu að fólk megi gera það sem því lystir meðan það skaðar ekki aðra. Með þessa reglu í huga hafa verið sett lög á Íslandi sem banna reykingar á vinnustöðum og opinberum stöðum en hingað til hafa veitingahús og barir verið undanskilin þessum lögum. Erfitt er að sjá að aðrar reglur eigi að gilda til verndar starfsmönnum veitingarhúsa og skemmtistaða en annarra vinnustaða. Þetta eitt og sér eru sterk rök til stuðnings reykingabanni.
Við þetta bætast áhrif reykinga á viðskiptavini staðanna. Margir hafa bent á að þeir stundi slíka staði af fúsum og frálsum vilja og hafi því ekkert vægi til stuðnings slíku reykingabanni. Stenst þessi röksemdarfærsla að öllu leyti í raunveruleikanum?
Tökum til dæmis óperuna, leikhúsið og ferðalög. Flestum finnst eðlilegt að hægt sé að fara í óperuna, í leikhús eða ferðast í flugvél án þess að verða fyrir hættulegum áhrifum frá tóbaksreyk. Er ekki jafn eðlilegt að hægt sé að fara út að skemmta sér á sama hátt án þess að verða fyrir slíkri mengun?
Raunin er sú að fyrir einstakling sem ekki vill verða fyrir áhrifum óbeinna reykinga er illmögulegt að stunda íslenskt næturlíf. Staðan er því sú að þessi einstaklingur þarf að sætta sig við annað tveggja: þá frelsisskerðingu að geta ekki stundað íslenska bari eða það heilsuspillandi umhvefi sem tóbaksreykingar skapa.
Að lokum
Hér hefur verið bent á nokkur rök sem styðja reykingabann á veitingahúsum og skemmtistöðum en fjölmörg rök standa einnig gegn slíku banni. Í umræðunni er nauðsynlegt að halda í heiðri rétti einstaklinga til heilsusamlegs umhverfis, jafnvel þótt einstaklingurinn geti fræðilega séð forðast slíkt umhverfi getur slíkt verið ill mögulegt í verki.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007