Mikilvægur þáttur í kosningabaráttu bandarískra forsetaframbjóðenda eru kappræðurnar sem eiga sér stað nokkrum sinnum fyrir hverjar kosningar en frammistaða forsetaefnanna í kappræðunum getur haft úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna. Sem dæmi má nefna að John F. Kennedy þótti standa sig glæsilega á móti Nixon árið 1960, Ronald Reagan átti góðar stundir gegn Jimmy Carter og Al Gore klikkaði á móti George Bush árið 2000.
Eftir margra vikna samningaviðræður hafa frambjóðendurnir komist að samkomulagi um framkvæmd, tímasetningar, staðsetningar og reglur fyrir kappræðurnar. Reglurnar eru hvorki meira né minna en 32 blaðsíður og er þar allt niðurnjörvað frá umræðuefni, lengd svara, hvernig spurningar má setja fram, hvernig myndavélunum skal beitt, fjarlægðin milli frambjóðenda, sminkur og svo framvegis og framvegis.
Að margra mati þykja þessar reglur allt of strangar og takmarka möguleikana á því að kappræðurnar verði líflegar og spennandi. Nákvæm lengd svara og hvernig og hvaða spurningar má setja fram er til dæmis líklegt til að draga úr óvæntum og fjörugum umræðum og því sem kalla mætti raunverulegar kappræður. Möguleikar frambjóðendanna á að ræða málefni fram og til baka og kasta spurningum á milli er mjög takmarkaður og nánast útilokað að heitar umræður munu skapast um eitthvað málefni. Þetta hefur verið töluvert gagnrýnt enda ljóst að kjósendur vilja spennu í kappræðurnar og fá frambjóðendurna til að vera soldið líflega og jafnvel smá æsta.
Tugir milljóna bandaríkjamanna munu fylgjast með kappræðunum þar sem frambjóðendurnir munu leggja sig alla fram um að sannfæra þá sem ekki hafa ákveðið sig og snúa þeim sem ekki eru harðákveðnir. Það sem þykir yfirleitt mest spennandi eru einhver óvænt atvik, sem hafa yfirleitt ekkert með málefni að gera, en geta algjörlega bjargað eða klúðrað kappræðunum og kosningabaráttunni fyrir frambjóðendurna. Þetta geta t.d. verið augngotur, einhvers konar svipbrigði, hversu fljótt, ákveðið eða óákveðið spurningu er svarað og svo framvegis. Fjölmiðlarnir grípa svo þessi atvik og endursýna þau aftur og aftur og aftur næstu vikurnar.
Fyrstu kappræðurnar verða fimmtudaginn 30. september, aðrar verða 8. október og þær síðustu þann 13. október. Fyrstu kappræðurnar munu fjalla um utanríkis- og varnarmál, og þær síðustu um efnahags- og innanríkismál. Kappræðurnar þann 8. október eru ekki bundnar við ákveðið málefni, en hins vegar skal fjallað jafn lengi um þessi tvö efni. Kappræðurnar þann 8. október verða einu kappræðurnar þar sem leyfðar verða spurningar frá áhorfendum í salnum. Eins og gefur að skilja er mikið lagt upp úr því hverjir mega spyrja og hvernig. Gert er ráð fyrir að um 100-150 manns verði í salnum og að áhorfendur skiptist jafnt í „mjúka“ stuðningsmenn beggja frambjóðenda.
Frammistaða Kerry í kappræðunum er sennilega meira áhyggjuefni fyrir hann en Bush, enda er þetta hans besta tækifæri til að ná til fólksins og koma sér og sínum málefnum áleiðis til fólksins. Kerry þykir almennt frambærilegur kappræðumaður en Bush virðist hafa eitthvað lag á að ná til almennings og gera lítið úr viðmælanda sínum með einföldum setningum eða látbragði.
Hvort kappræðurnar verða vendipunktur í þessari kosningabaráttu á eftir að koma í ljós, en sennilega þarf eitthvað mjög óvænt að gerast til áhrifin verði mikil.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020