Svissneskir íhaldsmenn víðsýnir að vanda.
|
Í kosningum um helgina felldu Svisslendingar tillögur Ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um ríkisborgararétt. Svissnesku lögin eru einhver þau íhaldsömustu á byggðu bóli. Það er til dæmis ekkert sem tryggir að fólk sem hefur búið alla ævi í Sviss, eða jafnvel börn þeirra, fái ríkisborgararétt.
Valdið til að veita fólki Ríkisfang liggur hjá yfirvöldum á hverjum stað fyrir sig. Krafist er 12 ára búsetu en reynslan sýnist það er næstum því aldrei nóg, sérstaklega þegar um er að ræða fólk frá Balkanskaga eða Norður-Afríku. Umsóknum þessa fólks er oft hent frá þrátt fyrir að það fullnægi öllum lagalegum skilyrðum.
Í frétt frá BBC fyrir helgina var sagt frá Fötmu Karademir, 23 ára gamallri konu sem búið hefur í Sviss alla sína ævi. Umsókn hennar var nýlega hent frá og henni sagt að hún þyrfti að bíða í 10 ár a.m.k. áður en hægt væri að meta hana almennilega. Fatma sagði enn fremur að þegar að því kæmi mundi hún vera spurð spurninga um hvort hún hlustaði á svissneska tónlist, gæti hugsað sér að giftast svissneskum strák, eða með hverjum hún myndi halda ef Sviss og Tyrkland mættust í fótbolta.
Það er auðvitað gríðarlega frústrerandi að búa í landi beins lýðræðis, þar sem borgararnir fá að segja skoðun sína á næstum því hverju sem er, en eygja ekki neina von um lýðræðislega þátttöku. Tillögur ríkisstjórnarinnar fólu í sér sjálfkrafa veitingu ríkisfangs handa „3. kynslóð“ (barnabörn innflytjenda!) og auðveldara ferli handa annarri kynslóð. Báðar tillögurnar voru felldar.
Auglýsing andstæðinga tillagnanna sýnir að andstaðan snerist ekki um andstöðu við auki vald alríkisins. Svartar hendur sjást teygja sig í svissnesk vegabréf í kassa. Myndmálið gæti ekki verið skýrara.
Að venju voru það hinar íhaldssömu þýskumælandi kantónur sem felldu tillögurnar á meðan hinar frönskumælandi voru fylgjandi. Ekki má gleyma að Svisslendingar hafa áður verið íhaldsamir þegar kemur að því að stækka þann hóp sem fær að kjósa. Konur í Sviss fengu ekki kosningarétt fyrr en á áttunda áratug. Það er raunar ótrúlegt að land sem á sér jafnglæsta sögu af samlífi ólíkra þjóðarbrota skuli ekki sýna meiri þroska þegar kemur að málefnum innflytjenda. Vonandi að þessu takist að breyta og hin stranga innflytjendalöggjöf mun dag einn þykja jafnfáranleg og lögin sem bönnuðu konum að kjósa.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021