The pheone is ringing of the hook…
|
Ævintýri lánlausa lögregluforingjans Jacques Clouseau í kvikmyndunum um bleika pardusin eru óborganleg. Myndirnar fjalla að grunni til um samskipti lögregluforingjans við lögreglustjórann Dreyfus, sem Clouseau er að gera gráhærðan með uppátækjum sínum. Nýlega lýsti leikstjóri myndanna því yfir að hann hyggist leikstýra fleiri kvikmyndum um lögregluforingjann en fá Steve Martin til að túlka Clouseau. Það er svo sem ekkert nýtt af nálinni að mógúlar í Hollywood vilji maka krókinn á gamalli beitu. Hins vegar tók steininn úr þegar framleiðendurnir sögðust eiga í viðræðum við knattspyrnumanninn David Beckham um að hann tæki að sér hlutverk í myndinni.
Hver er boðskapur sögunnar? Jú, það þýðir bara ekkert að skipta um aðalleikara og halda að útkoman verði jafngóð og áður — þrátt fyrir að allir aðrir verði á sínum stað.
Gefum okkur það að svo ólíklega vildi til að fyrir dyrum stæði að framleiða framhald af geysivinsælum fjórleik en burðarrullan væri ómönnuð. Lesendur sjá það strax að Ríkisvaldið V með Halldóri Ásgrímssyni er dæmt til að floppa og myndi aldrei gera annað en að falla í skuggan af blokkbösterfjórleiknum Davíð I-IV. Þrátt fyrir að mörgum finnist kannski seinasti hluti handritsins frekar klénn er óumdeilt að þrír fyrstu hlutarnir voru góðir. Þar kemur margt til: Aðalleikarinn hafði sjarma, var klókur og tókst meira að segja að yfirskyggja mistök framleiðandanna sem freistuðu þess að ráða þrjár frjálslyndar barnastjörnur til að auka aðsókn að seinasta hlutanum.
Ofureinföldun? — Varla.
Það gilda nefnilega svipuð lögmál sama í hvaða bransa menn eru. Þegar Guðmundi Hrafnkellssyni er skipt út af í landsleik kemur Roland Eradze inn á, enda áþekkir að öllu leyti. Þegar Logi Bergmann forfallast þá les Elín Hirst fréttir í staðinn. Undir engum kringumstæðum væri Elínu Hirst hins vegar skipt inn á fyrir Guðmund í markinu og því síður væri Eradze fenginn til að lesa kvöldfréttir í Ríkissjónvarpinu. Menn passa bara misvel í hlutverk og þótt þeim vegni ágætlega í aukahlutverkum er stórt skref að þurfa að leiða hjörðina.
Framsókn er ekki leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum, og þótt Halldór Ásgrímsson hafi að mörgu leyti staðið sig ágætlega, er ekkert sérstaklega hressandi til þess að hugsa að flokkur með tæplega 18% kjörfylgi taki við lyklunum að Stjórnarráðinu. 18% er ekki neitt — enda auglýsir Osta- og smjörsalan að ostur sé hollur og góður; BARA 18%!
Pistlahöfundur hefir sjaldan verið jafnnálægt því að fá aðsvif af hlátri og í kvikmyndinni um hefnd Bleika pardusins. Þar er Clouseau kallaður inn á teppi hjá yfirmanni sínum sem hellir sér yfir lögregluforingjann seinheppna. Clouseau hlustar fullur lotningar, þakkar fyrir ábendinguna — og strunsar síðan út af skrifstofu Dreyfus. Reyndar vildi ekki betur til en svo að dyrnar voru að klæðaskáp Dreyfus og þegar hrakfallabálkurinn áttar sig á að hann er inni í fataskáp yfirmanns síns, opnar hann skápahurðina löturhægt, lætur sem ekkert hafi í skorist og gengur rakleitt út um réttar dyr…
En hvað endurgerðir varðar — þá verður spennandi að fylgjast með hvort David Beckham ratar loksins út úr skápnum!
Góða helgi.
——-
Pistillinn birtist áður í Fréttablaðinu.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007