Þetta hófst allt saman á miðvikudagsmorgun.
Umferðin er ekkert minni en venjulega. Á Miklubrautinni sameinast ólíkir hópar fólks í hefðbundinni umferðarteppu, við gatnamót Hringbrautar ræðir móðir við börnin í aftursætinu um leið og hún setur á sig varalit. Fátt greinir kynin betur að en þessi fábrotna athöfn. Ef bara bílstjóranir fyrir framan tækju betur við sér, þá þyrfti maður ekki að bíða lengur á þessum helvítis ljósum.
Í vinnunni kemst fólk að því að það er bíllaus dagur í Reykjavík. Skrítið að láta vita af því þegar flestir eru komnir í vinnuna – á bílnum, en hugmyndin samt fín. Eftir vinnu aka allir bílstjórarnir af stað, meðvitaðir um það að þeir hefðu frekar átt að taka strætó, labba eða hjóla. Hjá sumum örlar á samviskubiti en aðrir bölva þessum helvítis borgaryfirvöldum. Verslunareigendur við Hverfisgötu reisa níðstöng við Ráðhúsið.
Á sömu stundu hlustar ungur maður á Spegilinn, fréttaskýringarþátt Útvarpsins. Þáttastjórnandi segir honum frá því magni af koltvísýringi sem bifreiðar í Reykjavík gefa frá sér á hverjum sólarhring. Auk þess, segir Spegillinn, eru Íslendingar of feitir, svo þeir hafa gott af því að labba. Og hvað með það! Er það ekki einstaklingurinn sem ákveður hvort hann sé of feitur? Er það stjórnvalda að ákveða hvort einkabílar eða almenningssamgöngur séu betri?
Um kvöldið hefur ungi maðurinn ákveðið að bíllaus dagur sé vitlausasta hugmynd sem nokkurt stjórnvald hefur fengið í sögu mannkyns. Rökin eru engin – honum bara finnst það. Sem oft vill verða með unga menn hefur hann ekki hugann við aksturinn þá um kvöldið. Á gatnamótum Lækjargötu og Hverfisgötu ekur hann aftan á næsta bíl, allir sleppa heilir nema Skodinn. Bíllaus dagur í Reykjavík, í orðsins fyllstu merkingu, endaði því sem bíllaus dagur í Reykjavík.
Þessi saga kennir okkur svo sem ekki margt, nema kannski að hafa hugann við aksturinn. Það var nefnilega ekki fyrr en í gærmorgun sem mér varð ljóst hversu auðveldlega við getum komist af án bílsins. Fyrir það fyrsta eru vegalengdir í Reykjavík í flestum tilfellum hlægilegar. Að komast bæjarhluta á milli á innan við 15 mínútum er til að mynda aðeins fjarlægur draumur í augum granna okkar á Norðurlöndum. Það að auki eru reiðhjól talinn raunverulegt samgöngutæki í löndunum í kringum okkur. Á Íslandi er það bara skrítið fólk sem ferðast um á hjólum.
En þetta eru auðvitað bara sjúkar hugsanir þess sem neyðist til að lifa án bílsins. Eftir nokkrar vikur verð ég 70.000 krónum fátækari, en það skiptir engu. Ég á nefnilega stefnumót við konu á gatnamótum Miklubrautar og Hringbrautar.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005