Eftir því sem vegalengdir hafa styst og sveitarfélögum verið færð aukin verkefni hefur krafan um sameiningu orðið háværari. Í raun má sjá ákveðið ferli. Sýslurnar eru að koma aftur, nú í formi sveitarfélaga. Þannig er næstum því allur Skagafjörðurinn kominn undir sama hatt og svipaða strauma má skynja víðar.
Aukin verkefni krefjast stærri eininga. Þetta er ferli hefur verið að eiga sér stað á öllum Norðurlöndum undanfarna áratugi. Þó hefur hvergi annars staðar einungis verið treyst á óþvingaðar og spontanískar sameiningar líkt og hér. Alls staðar annars staðar hafa stærstu skrefin verið stigin með því að því að breyta skipulaginu með lögum.
Af einhverjum ástæðum hafa menn verið einkar hræddir við að „þvinga“ sveitarfélög til að sameinast. Það stóð til dæmis til nýlega að breyta lögum um sameiningar sveitarfélaga á þann hátt að aðeins einfaldan meirihluta allra íbúa í viðkomandi sveitarfélögum (en ekki hverju þeirra fyrir sig) hefði þurft til að samþykkja sameiningartillögu. Hætt var við þetta og þess í stað ákveðið að endurtaka kosningarnar þar sem tillagan var felld. En þessu móti tókst mönnum að halda í hinn heilaga „sjálfákvörðunarrétt sveitarfélaga“.
Já, engin vill „þvinga“ greyið sveitarfélögin til eins eða neins. En því má ekki gleyma að sveitarfélög sjálf eru þvinguð upp á íbúa sína. Menn geta ekki ráðið því hvort þeir hvort þeir kosti eitt að kostnað annars og njóti þjónustu þess í staðið. Sveitarfélög eru því ekki eins og Valur og KR. Þau eru hluti af opinberu kerfi og fjárhagur þeirra tengist með sérstökum Jöfnunarsjóði. Af þeim ástæðum ættu menn að hafa hugrekki til að skipuleggja rekstur þeirra á stærri skala.
Sumum gæti fundist sem hér sé verið að nota almenn rök gegn lýðræði. „Hvers vegna að láta fólk kjósa um eitthvað sem einn maður gæti ákveðið?“ Núverandi leið sameininga hefur vissulega verið fremur klaufaleg og dýr, en er hún ekki betri en ráðherraeinræði? Og munu ekki einhver „tengsl rofna“ í stærri sveitafélögum?
Smá sveitarfélög þurfa að nota stærstan hluta tekna í rekstur sem er sameiginlegur með öðrum. Það væri skýrara fyrir kjósendur ef t.d. gengi skólamála réðust aðeins af ákvörðunum sinna eigin fulltrúa en ekki fulltrúa fimm ólíkra hreppa. Einnig er oft fátt um alvörukosti í fámennum kosningum. Annað hvort er sjálfkjörið eða að engin nennir að bjóða sig fram. Raunar væri heppilegast að fjölga talsvert í sveitarstjórnum ef þær sameiningar sem nú fara af stað verða verulegar. En það er efni í annan pistil.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021