Elskulegi bróðir,
Í dag tók ég þá ákvörðun að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Á mánudag mun ég ganga inn á Hagstofu Íslands og framkvæma gjörninginn. Það verða þung spor. Ég verð engu bættari og satt best að segja mun mér líða mjög illa. Ég er þeirrar gerðar að ég hef alltaf verið mjög trúaður og elskað minn frelsara. Hann veitti mér skjól þegar hvergi var skjól að finna. Hann bar smyrsl á sár sem enginn annar gat grætt. Þegar ég syrgði, þegar ég var einmana þá var Jesús þar.
Ég var staddur í brúðkaupi um daginn. Fallegu brúðkaupi. Presturinn sagði m.a. þessi orð við brúðhjónin; ,,..ástin gefur lífinu tilgang..” Sjáðu kæri bróðir, mín ást og minn tilgangur með lífinu hefur verið keypt með óhamingjunni. Ég er einn af þeim sem er samkynhneigður í þínum söfnuði. Eftir alla erfiðleikana við það að segja sannleikann um sjálfan mig, eins það og hafi ekki verið nógu langt og sársaukafullt ferli, hef ég þurft að takast á við margar aðrar hindrarnir. Ekki bara við landslög, sem eru þó að breytast ef nefnd Davíðs Oddssonar nær sínu fram, heldur þá hefur kirkjan, sem ávallt hefur verið kletturinn í lífi mínu, snúið við mér bakinu.
Ég hef allt mitt líf reynt að vera foreldrum mínum góður sonur, ömmu og afa elskulegt barnabarn, bróður mínum kærleiksríkur, ráðagóður frændi og sannur vinur vina minna. Þess utan hef ég reynt eftir fremsta megni að efna þau heit sem ég gaf frelsara okkar á fermingardegi og skírnardegi.
Ég skil ekki, minn ágæti biskup, af hverju ég þarf að finna til sorgar þegar ég á að finna til gleði? Ég hreinlega skil ekki af hverju augu mín fyllast af tárum þegar ég á að brosa og hlægja? Og ég skil ekki af hverju kirkjan mín sem áður fyllti mig vissu fyllir mig nú ótta og skömm?
Ágæti biskup hvers vegna er ég skítuga barnið hennar Evu, í heimi fullum af hatri, vegna þess að ég umfaðma ástina í öllum sínum blæbrigðum?
Mér verður oft hugsað til þeirra fjölmörgu sem tóku eigið líf vegna samfélags sem hafði ekki þroska til að taka á móti þeim. Vegna kirkju sem hafði ekki hugrekki til að staðfesta ást þeirra að fullu. Mér verður hugsað til þeirra vegna þess að stundum komu stundir í mínu lífi sem ég stóð í sömu sporum en skorti sem betur fer hugrekki. Sumir segja að okkar ást sé synd. Í mínum huga er það miklu meiri synd að þurfa að sjá fallegar sálir hverfa úr þessum heimi vegna höfnunar samfélags og kirkju.
Minn kæri biskup enn, ég verð ekki eilífur og þú ekki heldur. Hitt er svo aftur á móti annað mál að við báðir verðum dæmdir af verkum okkar. Ég af mínum. Þú af þínum. Í þessu alltof stutta lífi. Mín tilvera er eins og hún er, að mestu leyti góð. Einhverjir af þínum afkomendum koma til með að upplifa mínar tilfinningar þó síðar verði. Þá verður spurt um verk forfeðranna.
Það eina sem ég veit í dag er að þegar minn dagur kemur, þegar himnarnir opnast og ég stíg á móti ljósinu þá mun faðir minn á himnum taka mér, og mínum líkum, opnum örmum og sýna mér að ég, og við, vorum alls ekki verri en önnur mannanna börn.
Kirkjan á því að staðfesta það í dag þannig ég geti snúið aftur í kirkjuna mína. Þar sem ég á heima.
- Ég fer vestur - 8. júlí 2021
- Að friðlýsa hálfan bæ - 7. maí 2021
- Farvel Filippus - 9. apríl 2021