Ódæðisverkin í Beslan sýna svart á hvítu til hverra ráða öfgamenn eru tilbúnir til að grípa til í baráttunni fyrir sjálfstæði þjóðar sinnar. Það er ómögulegt fyrir Íslendinga sem börðust árum saman fyrir sjálfstæði sínu með friðsamlegum hætti að skilja hvernig menn geta gripið til slíkra baráttuaðferða. Enda er saga þjóðanna eins og ólík og hugsast getur.
Téténar hafa ávallt verið andstæðingar rússneskra áhrifa á Kásussvæðinu. Um miðja 19. öld gerðu Téténar tilraun til að stofna múslimskt ríki en rússneski herinn braut þær tilraunir á bak aftur. Eftir byltinguna 1917 lýstur þeir svo yfir sjálfstæði en komust fljótt undir stjórn bolsévika og urðu hluti af Sovétríkjunum. Í seinni heimsstyrjöldinni var Stalín fullviss um að Téténar hefðu aðstoðað þýska innrásarliðið. Það er talið víst að margir Téténar hafi fagnað komu Þjóðverja og eygt von um sjálfstæða Téténíu ef Sovétríkin töpuðu styrjöldinni. Stalín brást grimmilega við þessum svikum, hann gerði tilraun til þess að flytja alla þjóðina til Mið-Asíu og Síberíu. Nokkru eftir lát Stalíns fengu Téténar að snúa aftur til heimalands síns en en talið er að allt að fjórðungur þjóðarinnar hafi látist við þessar aðstæður. Við fall Sovétríkjanna 1991 lýstu Téténar svo aftur yfir sjálfstæði en hinn nýi forseti Rússlands, Boris Yeltsín hunsaði yfirlýsingarnar og sendi herinn á vettvang. Síðan þá hafa verið vopnuð átök á svæðinu með þeirri undantekningu að samið var um vopnahlé árið 1996 sem átti að viðhalda óbreyttu stjórnskipulagi í 5 ár en það brást árið 1999.
Í ljósi sögunnar kynni maður að spyrja sig, af hverju í ósköpunum veita Rússar Téténum ekki einfaldlega sjálfstæði? Litið hefur verið á Téténa sem sérstaka þjóð a.m.k. síðan á 17. öld, landið er nánast rústir einar eftir langvinn átök, uppsafnaður kostnaður Rússa við stríðið er orðinn gríðarlegur og friður ekki í sjónmáli. En málin eru því miður ekki svona einföld.
Margir hafa bent á efnahagslegan ávinning Rússa af Téténíu. Mikilvæg olíuleiðsla liggur í gegnum Téténíu til Úkraínu auk olíuframleiðslunnar á svæðinu og annarra náttúrulegra gæða. En eins og Árni Bergmann benti á í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 um daginn, þá liggur vandamálið sennilega frekar í því fordæmi sem sjálfstæði Téténíu myndi setja en efnahagslegum þáttum. Í fyrsta lagi væru Rússar að gefa eftir í baráttunni við hryðjuverkamenn og í öðru lagi þá myndi það gefa fjölmörgum öðrum þjóðum og þjóðarbrotum á svæðinu í kring sterk rök fyrir því að þau ættu einnig að hljóta sjálfstæði. Gekk Árni svo langt að líkja því við ástandið í fyrrum Júgóslavíu í öðru veldi. Það er því ljóst að Pútín er vaxandi vandi á höndum. Vandamálið virðist í óleysanlegum hnút og hann hefur sætt gagnrýni fyrir það hvernig hann hefur tekið á málinu. Eins og staðan er í dag er ekkert sem bendir til þess að Rússar og Téténar komist út úr þessum hörmungum, hryðjuverkaárásir munu sennilega halda áfram og fólkið í Téténíu mun halda áfram að þjást, án sjálfstæðis.
- Geimferðir NASA hefjast á ný - 13. júlí 2005
- Gervigreind - 24. mars 2005
- Gervigreind - 23. mars 2005