Undanfarið hefur mikil umræða verið í þjóðfélaginu vegna kaupa Símans á hlutafélagi sem á Skjá -1 og svo enska boltann. Raunar var fyrir löngu ljóst að Skjár -1 hefði með engu móti ráð á að eiga enska boltann en það hafi verið hluti af aðferð til að fá menn að samningaborði um kaupa á félaginu. Líklega reiknuðu flestir með að Norðurljós myndu eignast stöðina.
Síminn hefur í raun verið á miklum samkeppnismarkaði undanfarið og því ekkert nýtt að síminn hafi ráðist inn á slíkan markað, sjónvarpsmarkaðurinn er bara lítil viðbót við nethýsingu, netveitu, gsm og símakerfismarkað svo eitthvað sé nefnt. Fjölmargir einkaaðilar hafa verið á þessum mörkuðum og hvort sem hefur verið um að ræða fyrirtæki sem sinna broti af þessum markaði eða heildarlausnir. Síminn hefur jafnframt byggt upp breiðbandið, eitthvað sem margir hafa gagnrýnt fyrir að vera alltof dýrt. Þar hefur Síminn boðið upp á sjónvarpsefni í töluverðan tíma. Hins vegar hefur lítið gengið að selja fólki inn á Breiðbandið, sem er reyndar fyrst og fremst Símanum sjálfum að kenna en hver vill borga á fimmta þúsund fyrir BBC, norrænu ríkisstöðvarnar og nokkrar aðrar?
Það má velta því fyrir sér hvort sú umræða sem nú á sér stað um Símann hefði átt sér stað ef hann væri í einkaeigu. Hefðu margir spurt hvort “símapeningar” viðkomandi eða ofsagróði hefði verið notaður ef Ogvodafone hefði keypt sambærilegan pakka? Neikvæð umræða hefur skokið Símann nánast á hverju einasta ári. Markaðsmenn Símans hafa þurft að eyða hundruðum milljóna í að sannfæra neytendur um traust fyrirtækisins í hvert einasta skipti á eftir, enda er það jú traust sem skiptir einna mestu máli þegar kemur að fjarskiptum. Líklega eru sömu aðilar að funda stíft hjá einhverri auglýsingaskrifstofunni til að bæta upp fyrir þessa umræðu.
Í hvert skipti sem umræðu um sölu Símans bera á góma, fara margir í að ræða hvort selja eigi grunnetið með. Helstu rökin eru að veita eigi öllum jafnan aðgang og ríkinu sé einu treystandi til þess. Nú sér Póst og fjarskiptastofnun um eftirlit með að allir hafi þetta aðgengi. Við söluna verður lítil breyting á þessu. Vilji menn vera tryggir, mætti þó hugsa sér að stofna tvö fyrirtæki sem þá yrðu bæði seld. Grunnnet ehf eða hvað sem það myndi heita hefði hag af því að selja sem flestum inn á grunnnetið. Hins vegar eru örar tækniþróanir í gangi, mun fleiri leiðir eru til að dreifa símmerki en áður, og því spurning í hvað er verið að halda.
Það hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera forgangsatriði að selja Símann hið fyrsta. Síminn hefur starfað í mjög harðri samkeppni við einkaaðila sem hafa sýnt að þeir eru fullfærir um að keppa að öllu leyti við Símann. Eftir engu er að bíða enda hefur Síminn verið á sölulista í langann tíma. Markaðurinn hefur fyrir löngu jafnað sig eftir það hrun sem átti sér stað þegar fyrri hugmyndir voru uppi um sölu Símans.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020