Í þessari viku skilaði nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks niðurstöðum sínum. Nefndin fór yfir íslensk lög og reglur á þeim sviðum þar sem samkynhneigðir njóta ekki sömu réttarstöðu og gagnkynhneigðir og kannaði framkvæmd laga sem miða að því að vinna gegn mismunun gegn samkynhneigðum. Nefndin skilaði tillögum að úrbótum og er óhætt er að segja að nefndin leggi til miklar og góðar breytingar á réttarstöðu samkynhneigðra. Vegur þar líklega þyngst að nefndin leggur til að samkynhneigðum pörum verið heimilað að frumættleiða börn en jafnframt eru lagðar til miklar réttarbætur varðandi samkynhneigð pör í sambúð.
Nefndin skorar einnig á þjóðkirkjuna að breyta afstöðu sinni til hjónabands samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gangkynhneigð pör. Í dag er staðan þannig að skv. lögum um staðfesta samvist geta einungis sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra verið framkvæmdaðilar hennar en það útilokar kirkjulega athöfn skv. 17. gr. hjúskaparlaga. Telur nefndin að kirkjan þurfi að breyta afstöðu sinni til þessara mála til að hægt verði að breyta íslenskum lögum á þann hátt að prestar geti einnig staðfest samvist.
Þrátt fyrir að kirkjuleg vígsla breyti engu um réttaráhrif gerningsins þá er ljóst að um er að ræða gífurlegt mikilvægt mál fyrir samkynhneigða. Með því að standa í vegi fyrir því að þeir fái slíka vígslu er þjóðkirkjan að setja samkynhneigða skör lægra í þjóðfélaginu og ýta undir þá fordóma að samkynhneigð sé á einhvern hátt óeðlileg. Það verður að teljast algjörlega óþolandi að ríkisstofnun sé að mismuna fólki og ala á fordómum með þessum hætti. Það er þess vegna staðföst trú undirritaðs að ef þjóðkirkjan hverfur ekki frá kreddum sínum varðandi samkynhneigða sé aðskilnaður ríkis og kirkju óumflýjanlegur.
Það eru hins vegar ákveðin vonbrigði að nefndin skuli einungis skora á kirkjuna að breyta afstöðu sinni til málsins í stað þess að leggja einfaldlega til að lögum um staðfesta samvist verði breytt þannig að prestar geti framkvæmt staðfesta samvist. Með því væri kirkjan neydd til að hugsa sinn gang alvarlega og frjálslyndum prestum hjálpað í baráttunni gegn 18. aldar hugsuninni sem virðist stundum vera ríkjandi innan kirkjunnar. Þetta er einfaldlega of mikilvægt réttindamál til að hægt sé að leyfa kirkjunni að halda áfram að tefja málið og í raun algjörlega óásættanlegt.
Önnur vonbrigði voru að nefndin klofnaði bæði í afstöðu sinni til ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvgana. Er það sérstaklega leiðinlegt því nefndin fór mjög ítarlega ofan í innlendar og erlendar rannsóknir á málefnum barna í samkynhneigðum fjölskyldum. Hafa þær rannsóknir eytt öllum fordómum gangvart uppeldi samkynhneigðra á börnum og sýnt fram á að samkynhneigðir eru alveg jafn góðir foreldrar og gagnkynhneigðir og jafn hæfir uppalendur. Það hefði því verið rökrétt framhald á þeirri góðu umfjöllun sem er um þessar rannsóknir í skýrslunni að nefndin hefði einróma lagt til að samkynhneigðum verði heimilaðar ættleiðingar á erlendum börnum og tæknifrjóvgun.
Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að Ísland standi mjög framarlega í þessum málaflokki og að einungis Svíþjóð standi okkur framar í að viðurkenna fullt jafnrétti. Þessi tíðindi eru vissulega ánægjuleg en breyta því ekki að það hefði verið hægt að ganga lengra. Fullt jafnrétti hlýtur alltaf að vera markmið allra minnihlutahópa í þjóðfélaginu og eru samkynhneigðir engin undantekning. Það er því óskandi að Alþingi taki undir álit þeirra nefndarmanna sem vildu ganga lengst í réttarbótunum. Höldum áfram að draga vagninn í alþjóðlega réttindabaráttu samkynhneigðra.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020