Einhvern tímann sagði einn kunningi minn mér frá því að þegar hann ungur og uppgötvaði tilvist útlanda. Honum fannst það reyndar mjög magnað að til væru mörg útlönd en aðeins eitt Ísland. Í þessu fólst auðvitað að Ísland væri sérstakt, öðruvísi, einstakt.
Ég hef aldrei heyrt neina betri skýringu á því í hverju hin margumtalaða sérstaða Íslands fælist, sérstaðan sem er notuð sem skýring fyrir því að við bönnum suma hluti sem aðrir leyfa og veitum öðrum, sem öðrum þjóðum þykja lítt merkilegar, óþarflega mikla athygli. „Við erum við því hinir eru það ekki.“
Stundum tína menn reyndar til hluti eins og mannfjölda, landfræði eða þjóðarheimsku sérstöðunni til stuðnings. Þegar einhver saklaus sála spyr hvers vegna þurfi heila sjónvarpsstöð til að sýna leiðinlegt sjónvarpsefni er henni tjáð að það þurfi vegna þess að við séum svo fá. Þegar hún spyr hvers vegna hún megi ekki koma með búvörur inn í landið er það rökstutt með því að við búum á eyju og þegar hún veltir því fyrir sér hvers vegna henni sé óheimilt að versla vín á fleiri stöðum er það til að hún mundi ekki drekka öllu frá sér.
Veltum reyndar mannfæðarrökunum aðeins betur fyrir okkur. Hvers vegna er ekki hægt að reka sjónvarpsstöð með dýralífsþáttum einungis? Eða sápuóperum? Eða heimildarþáttum? Hvers vegna þarf ríkisrekna sjónvarpsstöð? Jú, við erum svo fá segir einhver. En hvers vegna er litið á það sem eitthvað lögmál?
Eitt sinn mátti hver sem vildi flytja til Íslands og þá fjölgaði fólki mest. Fólk á flótta undan yfirvaldi lagði hér að og kom á sæmilegri stjórnskipan. En síðan mettaðist landið, byggðin þróaðist ekki og einveldi konunga gerði skemmdi enn meira fyrir. Nú gat ekki hver sem vildi sest hér að í leit að betra lífi. Reyndar, ef litið er til þátta eins og veðurfars, einokunarverslunar og vistarbandsins, mætti halda að eina ástæðan fyrir að menn hafi ekki flúið land í hrönnum var að þeir höfðu ekki ráð á eða vissu ekki betur.
Það kemur því á óvart að nú þegar fólk vill loksins á ný flytja til Íslands gerum við hvað sem í okkar valdi stendur til að gera því það sem erfiðast. Sérstaklega í ljósi þess að öflugustu þjóðfélög heims voru einmitt byggð af slíku fólki.
Það er auðvitað ekkert lögmál að Íslendingar séu svona fáir. Frelsi dregur að fólk. Því ber að varast að rökstyðja höft með mannfæð, þar sem aukin höft einmitt fæla fólk frá. Við eigum að leyfa frelsinu að flæða frá fjallstindum til stranda og leyfa sem flestum að njóta. Það er sérstaða sem ég get auðveldlega fallist á.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021