Þegar ég byrjaði að koma að pólitísku starfi fyrir nokkrum árum síðan sagði móðir mín mér að ég ætti að hugsa mig tvisvar um áður en ég hellti mér út í stjórnmál af einhverju viti, því pólitíkin væri oft ljótur leikur. Eins og mæður eiga venju til hafði hún rétt fyrir sér, því miður.
Við sjáum stundum þegar stjórnmálamenn skreyta sig með stolnum fjöðrum, hagræða óþægilegum sannleikanum með fagurgala eða segja já og kannski þegar þeir vita að svarið er nei. Það er auðvelt að falla í þennan pitt í undarlegu landslagi stjórnmálanna. Það þarf jú að halda persónulegu fylgi til að missa ekki þingsætið.
Ég kynntist Árna Ragnari í ársbyrjun 2003 þegar hann bað mig að stýra kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þá um vorið. Það litla sem ég þekkti til hans var í gegnum fjölskyldu mína sem bjó í Keflavík. Hann var ekki mjög áberandi í fjölmiðlum miðað við marga aðra þingmenn og því þekkti ég ekki mikið til þingstarfa hans þá.
Það kom mér þess vegna á óvart þegar ég kynntist eldinum sem brann í brjósti hans. Hann var ákafur að sýna flokksfélögunum að þeir höfðu gert rétt í að velja hann til forystu, reiðubúinn að taka af skarið og leiða flokkinn sjálfur með loganum sem var trú hans á sjálfstæðisstefnuna og kraftinn sem býr í hverju og einu okkar.
Ég get því ekki ímyndað mér hvers konar áfall það hefur verið fyrir hann að fá fréttirnar örfáum dögum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í mars 2003 um að meinið hafi skotið upp kollinum aftur. En hann hafði áður haft sigur gegn krabbameininu oftar en einu sinni og ætlaði sér það einnig í þetta skiptið.
Mér þótti æðruleysið og styrkurinn sem Árni Ragnar sýndi í kosningabaráttunni með ólíkindum. Þó lyfjameðferðin sem hann undirgekkst hefði haft allt önnur og miklu meiri áhrif á hann en í fyrri skiptin reyndi hann hvað hann gat til að taka þátt í kosningabaráttunni. Hann frestaði meira að segja meðferðinni tímabundið til að safna styrk fyrir lokasprettinn.
Það var ekki stíll Árna að stilla sér upp framan við myndavélar. Hann var maður athafna frekar en orða. Hann var ekki einn þeirra sem féllu í hin pólitísku fúafen innantómra orða. Góður ræðumaður en veigraði sér þó ekki við að segja hlutina umbúðalaust. Hugsanlega vegna þess að hann þekkti af eigin reynslu að enginn fær flúið veruleikann. Aðeins vinna og þor duga í hörðum heimi, stolnar fjaðrir duga skammt. Til að mynda vissu ekki margir um það mikla starf sem hann vann fyrir framfarir í meðferð fyrir krabbameinssjúka.
Hvort sem það var á sjúkrabekk eða í kosningum barðist Árni hart og af æðruleysi og vissi að það síðasta sem menn tapa í stríði er gleðin. Hann hafði mikið keppnisskap en jafnframt húmor og kallaði sig gjarnan stærsta viðskiptavin heilbrigðiskerfisins.
Það óeigingjarna starf sem Árni Ragnar vann er þakkarvert. Alla tíð var hann virkur í hvers kyns félagsstörfum en þrátt fyrir það sótti hann ekki í sviðsljósið eins og margir gera. Duglegur og öflugur liðsmaður sem fékk því miður ekki tækifærið sem hann átti skilið til að leiða flokkinn sinn á þann hátt sem hann vildi. Hefði Guð lofað væri hann eflaust einn öflugasti ráðherra ríkisstjórnarinnar núna, en í stað þess var Árni Ragnar kallaður til betri verka á æðri stöðum.
Til fjölskyldu og vina Árna Ragnars sendi ég samúðarkveðjur fyrir mína hönd og ritstjórnar Deiglunnar.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021