„Þetta er ólöglegur innflutningur,“ sagði tollvörður á Keflavíkurflugvelli alvarlegum augum við mig þegar ég kom heim frá Kaupmannahöfn um helgina. „Hvað áttu við?“ spurði ég forviða og skelkaður í senn. „Það er ólöglegt að koma með salami álegg inn í landið.“
Ég hafði keypt tíu salami áleggssneiðar í danskri sælkerabúð á Kastrup flugvelli ásamt brie osti og dönsku rúgbrauði. Hér var ekki um einbeittan brotavilja minn að ræða heldur hugsunarleysi eða fáfræði. Sennilega hafa tollverðirnir þekkt innkaupapokann frá þessari ágætu verslun því í tollhliðinu var ég samstundis beðinn um að upplýsa um innihaldið. Lengra náði frelsið ekki því samviskusamir tollverðir komu í veg fyrir þennan fráleita munað sem ég hafði reynt að „smygla“ inn í landið.
Á leiðinni frá Keflavík, þegar flugeldssýning Menningarnætur Reykjavíkurborgar lýsti upp næturhimininn, fór ég að velta fyrir sér alvarleika brotsins. Sennilega höfðu laganna verðir með árvekni sinni komið í veg fyrir alvarlegt tilræði við íslenskan landbúnað. Ef til vill hefði þetta salami stykki í loftæmdum umbúðum innihaldið bráðdrepandi veirur er hefðu að öllum líkindum gert út um íslenskt kvikfé? Enda alkunna að Danir eru sífellt etandi baneitraðan mat og lífslíkur þar töluvert lægri en hér heima. Ég hefði ekki þurft annað en að smyrja nokkrar salami brauðsneiðar fyrir beljurnar í landinu til þess að stórslys hlytist af.
Hver þarf auk þess á Salami að halda? Íslendingar hafa hingað til getað sætt sig við íslenska spægipylsu, þá hreinustu og hollustu í heimi. Hégómi undirritaðs er auðvitað fráleitur enda færi hér allt í vitleysu ef Íslendingar færu að kaupa alls kyns auvirða munaðarvöru erlendis eftirlitslaust. Við höfum hér frelsi til þess að kaupa íslenska landbúnaðarvöru hvenær sem okkur dettur í hug, vöru sem við erum hvort eð er að greiða fyrir sköttunum okkar.
Ég er fullur iðrunnar eftir þetta brot mitt en það sem verra er að ég hef óafvitandi áður gerst brotlegur salami-smyglari. Sem löghlýðinn borgari mun ég nú tilkynna brot mitt til yfirvalda og taka út tilhlýðilega refsingu.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009