Þegar sumarið er að renna sitt skeið á enda tekur við tímabil sem ber sterk einkenni þess að skólarnir eru að hefjast. Verðstríð á skólabókum og fartölvum hefst og tilboðum rignir yfir landsmenn. Skemmtilegur fylgifiskur þessa tímabils er einnig kynningar á öllum þeim tómstundum sem boðið er upp á á veturna.
Septembermánuður einkennist á hverju ári af svolitlum valkvíða hjá mér vegna þessa ótrúlega framboðs. Ég er sérstaklega spennt fyrir tangónámskeiðum, jógatímum og slíku. Það er óneitnalega smart að stunda jóga – og svo er það víst svo slakandi ásamt því að hafa jákvæð áhrif í för með sér fyrir líkama og sál.
Á hverju hausti ákveð ég þó að halda mér við mína slökun. Hún er kannski ekki alveg eins elegant og jóga en virkar alveg frábærlega fyrir mig. Ég leigi myndbandsspólu. Það er fátt sem jafnast á við það að horfa á myndband enda prýðis góð skemmtun sem fær mig til að gleyma stund og stað. Frábær slökun.
Videóglápið hefur þó valdið mér smá hugarangri upp á síðkastið og er svo komið að það veitir mér ekki sömu slökun og áður. Nokkur atriði koma þar við sögu. Til dæmis háar sektir ef spólu er skilað of seint. Hver spóla er leigð í einn sólarhirng í senn. Ef henni er skilað degi of seint, er litið á að hún hafi verið tekin á leigu í annan sólarhing, og sektin tekur mið af því. Þetta eru háir vextir og miklir blóðpeningar.
Þá skiptir máli hvenær sólarhrings spólunni er skilað, en það á ekki að gerast seinna en klukkan níu á kvöldin. Það er því eins gott að muna eftir því að taka spóluna með sér að heiman á morgnana, því ef það gleymist er hætt við því að ég nái ekki tímamörkunum. Ósjaldan kemur maður ekki heim fyrr en langt er liðið á kvöld og þá eru góð ráð dýr ef spólan er enn í tækinu heima.
Á þessa reglu reyndi nýverið hjá mér. Ég var í miðjum klíðum að halda grillveislu heima hjá mér. Það er ekki slökun, þvert á móti. Ég var búin að koma út aðalréttinum og var að skreyta eftirréttinn þegar heimasíminn hringdi. Það er frekar óvenjulegt að hann hringi, það er helst fólk sem er að reyna að ná í fyrirtæki með mjög líkt símanúmer sem hringir heim til mín, en það er önnur saga. Það reyndist vera eigandi vídeóleigunnar á línunni: „Hæ! Þetta er Didda á Vídeóleigunni, heyrðu elskan, hvænær ætlar þú að skila Along came Polly?“ Ég bara varla trúði því að leigan væri að hringja heim til mín og reyndi að hugsa hvað ég ætti að segja. Það eina sem ég vissi var að ég hafði tekið spólu hjá þeim daginn áður og hélt að ég ætti rétt á að hafa hana út kvöldið. „ Það eru tveir á biðlista eftir henni.“
Þannig er nú það. Ef leigur þessa lands hefðu það að markmiði að sinna þörfum viðskiptavinanna, ekki sínum eigin, þá væri þessu öðruvísi háttað. Kannski tek ég bara of mikið vídeó og því búin að kynnast starfsemi þeirra of vel. En nú er svo komið á ég bíð spennt eftir kynningum á jóganámskeiðum vetrarins. Aldrei að vita nema maður skelli sér bara í jóga í staðinn.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008