Það fer alveg gjörsamlega með daginn eins og hann leggur sig hjá kvenkyns sólunnendum að þurfa að klæðast óþægilegum brjóstahöldum á ströndinni.
|
Að sögn skipuleggjenda má fastlega búast við því að allt að 150.000 manns verði í miðborg Reykjavíkur á laugardagskvöld til að mótmæla þeirri menningarsnauðu ákvörðun borgaryfirvalda að meina stúlkum að bera brjóst sín á ylströndinni í Nauthólsvík. Fjölmargir listamenn hafa ákveðið að leggja málefninu lið og stefnir allt í einn stærsta mótmælafund Íslandssögunnar. Þannig er Bill Clinton, verndari mótmælanna, væntanlegur til landsins í næstu viku ásamt fylgdarliði og mun hann eiga fund með íslenskum ráðamönnum um framtíð bers holds í Nauthólsvík.
Kunnugir telja að fastlega megi gera ráð fyrir því að framkvæmdastjórn Landsambands framsóknarkvenna skori á þingflokk Framsóknarflokksins að skerast í leikinn, enda kraumar ólga á meðal kvenna í flokknum og er brjóstamálið talið hafa þjappað framsóknarkonum mikið saman. Dagný Jónsdóttir, þingkona flokksins, er þó á öðru máli og birtir harðaorðan pistil á vefsíðu sinni sem vakið hefir umtalsverða athygli.
Það verður bara að segjast eins og er að brjóstabannið er gjörsamlega glatað. Fyrir utan hversu plagað það er af smáborgaraskap lýsir það pempíuheitum í sínu ljótasta birtingarformi. Ég veit ekki með ykkur, en persónulega truflar það pistlahöfund ekkert sérstaklega ef einhverjar stúlkur kjósa að spranga um án brjóstahalda í sólinni. Það er þeirra val og minn gróði. Reyndar er það bara fullkomlega eðlileg hegðun—enda spennir pistlahöfundur aldrei á sig brjóstahöld þegar hann fer í sólbað!
Íslendingar eru nefnilega ekki nemendur í afturhaldsinnuðum bandarískum menntaskóla og jafnvel þótt einhverjum gallsúrum skriffinna djúpt í stjórnkerfinu finnist æðislega sniðugt að setja reglur um það hverju menn eigi að klæðast og hverju ekki, þá finnst öllum öðrum það fullkomið andris og hljóta að spyrja sjálfa sig: Hvað næst? Siðgæðisverðir á skemmtistöðum borgarinnar vopnaðir reglustiku til að stika út pilsasídd? Bannað að vanga eftir miðnætti?
Einkvæni?
Á endanum hlýtir viðlíka bann að falla um sjálft sig, enda er það bara kjánalegt, asnalegt og furðulegt. Þannig gæti pistlahöfundur talið upp miklu fleiri málefnaleg orð sem enda á „-legt“ til að lýsa frati á brjóstabannið, en þess gerist sennilega ekki þörf, enda dæmir það sig sjálft.
Það væri líka svo bjánalegt!
Auk þess sem það hlýtur að vera djöfulli pirrandi að eyða allri sumarhýrunni í kísilbrjóstaígræðslu og fá svo ekki að flagga dýrðinni…
Sjáumst í mótmælagöngunni annað kvöld!
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007