Innsetningar

sdfdÞá fyrst þú hefir tapað öllu ertu frjáls til flestra verka.

„Hvar er húfan mín? Hvar er hempan mín? Hvar er falska, gamla, fjögurrra gata flautan mín?“—kynni Michael Landy að spyrja sjálfan sig…

Það er stundum sagt að efnishyggjan tröllríði öllu sem á vegi hennar verður. Slíkt er þó umdeilanlegt og má svo sannarlega ræða frekar—sérstaklega ef menn skyldu vera svo heppnir rekast á bretann Michael Landy í IKEA eftir vinnu. Reyndar er líklegt að Landy hefði frekar takmarkaðan tíma til skrafs og ráðagerða við lesendur Deiglunnar, enda yrði hann að öllum líkindum frekar upptekinn við að kaupa sér ýmislegt nýtilegt í búið.

Listamaðurinn öðlaðist nýverið umtalsverða frægð í heimalandi sínu fyrir nýstárlega innsetningu sem fólst í því að hann eyðilagði allar veraldlegar eigur sínar á skipulagðan máta. Þannig voru þvottavélin, naríurnar, gleraugun, parketið, Saab-bifreiðin og allar aðrir hlutir í hans eigu brotnir mélinu smærri og settir í risastóra ruslapoka sem gegndu lykilhlutverki í innsetningunni. Kunnugir segja að talsverð eftirsjá sé af flestum eigum hans—fyrir utan naríurnar sem höfðu uppsafnaðan pótentíal í að ganga sjálfar á brott frá eiganda sínum.

Sem gagnrýni á efnishyggju er listaverkið gott og gilt. En hins vegar hlýtur að vera dálítil þversögn fólgin í því að selja listaverkið til þess eins að geta keypt hlutina sem eyðilagðir voru á nýjan leik! Er það ekki svona svipað eins og að drepa Pöndu og selja höfuðleðrið sem Goth-fylgihlut til þess að fjármagna verndun Pöndustofnsins!

Sitt sýnist hverjum um breska nútímalist og hafa innsetningar af svipuðum toga fengið umtalsverða umfjöllun á liðnum árum í heimspressunni. Þannig göptu margir af undrun þegar Tracey Emin var tilnefnd til hinna eftirsóknarverðu Turner-verðlauna árið 1999 fyrir innsetninguna „Rúmið mitt“ sem sýnd var í Tate-safninu í Lundúnum. Menn þurfa svo sem ekkert að geta klofið atómið til að geta sér til um efni innsetningarinnar: Rúmið hennar var einfaldlega til sýnis í tómu herbergi.

Þrátt fyrir að margir séu efins um þessa stefnu og telji að um sóun á tíma og fé listamannanna sé að ræða er slíkt fjarri lagi, enda hafa margir þeirra efnast stórlega á verkum sínum og anna hvergi nærri eftirspurn. Reyndar er eftirspurnin frekar einsleit, enda hefur listaverkasafnarinn og auglýsingahálfguðinn Saatchi ryksugað upp flest verk ungu bretanna og greiddi þannig 40.000 bandaríkjadali fyrir rúmið hennar Tracey.

Og Tracey* fylgdi ekki einu sinni með í kaupunum!

———-

*Undo—pistlahöfundur myndi aldrei leggjast svo lágt að hlutgera kvenmannslíkamann og gera því skóna að efnaðir karlmenn geti keypt konur til fylgilags við sig. Í einfeldni sinni var pistlahöfundur þó ófær um að hemja sig í þetta skipti.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)