Af einhverjum ástæðum virðist krauma í framsóknarkonum um þessar mundir. Þær virðast telja sig hafa fengið vísbendingar um það að ein þeirra, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, verði sett af í ríkisstjórnaruppstokkuninni 15. september nk. og við það geti þær ekki sætt sig. Allt er þetta í senn merkilegt og margbrotið.
Í gær birtist í einhverjum dagblöðum heilsíðuauglýsing frá um 40 framsóknarkonum héðan og þaðan af landinu, aðallega þaðan, þar sem þeirri áskorun var beint til þingflokksins að hann „[virti] lög flokksins um jafnrétti og [stæði] jafnframt undir væntingum kjósenda við val á ráðherrum nú þegar Framsóknarflokkurinn [tæki] við forsæti ríkisstjórnar Íslands“. Undir þetta tók framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna í ályktun í gær og „fagnaði“ framtaki þessara 40 kvenmanna. Í ályktuninni kom jafnframt fram að ef konum yrði fækkað bryti það í bága við jafnréttisáætlun flokksins og lög hans sem samþykkt hafa verið á flokksþingi.
Allt er þetta gott og blessað, eða þannig. Kannski er greinarhöfundur kerskið karlrembusvín, en þetta situr allt einhvern veginn þversum í honum. Það er erfitt að koma þessu niður nema með því að fá sér vænan gúllara. Allur þessi málflutningur byggir á þeirri forsendu að allar líkur séu á því að konum verði á einhvern hátt „mismunað“ við val á ráðherrum 15. september. Að þegar af þeirri ástæðu að kona verði færð úr því að vera ráðherra yfir í að vera óbreyttur þingmaður, sé verið að brjóta gegn jafnréttisáætlunum og þvíumlíku. Að það eigi að vera þannig 15. september að karl skuli út úr ráðherraliði framsóknar en ekki kona, hvað sem tautar og raular og hvað sem öllum hæfileikum og öðrum málefnalegum viðmiðum líður. Það sé brot gegn jafnréttisáætlun að kona verði látin víkja.
Allt ber þetta að sama brunni hins femíníska fasisma, þar sem yfir allt og alla skal valtað með jafnréttið að vopni í dulbúningi ójafnréttis. Konur skuli velja af því þær eru konur. Karlar skuli víkja af því þeir eru karlar. Þessi viðhorf má greina í öllum flokkum. Þessu er alltaf verið að slá upp. Litið er framhjá hæfileikum, og heppilegheitum en einblínt á kynferði. Með sömu röksemdafærslu má halda því fram að það sé ótækt að örvhentir eigi ekki sæti í ráðherraliði Framsóknar. Hvað með jafnrétti þeirra? Prófum að skipta út orðinu „kona“ í ályktun Landssmbands framsóknarkvenna frá í gær og setjum í staðinn orðið „örvhentur“ og lítum á útkomuna:
Framkvæmdastjórn Landssambands örvhentra framsóknarmanna ítrekar fyrri ályktun málþings sambandsins frá 21. maí sl. um stöðu örvhentra innan Framsóknarflokksins. Gerð er krafa um að við væntanlegar breytingar á ríkisstjórn Íslands hinn 15. september verði örvhentum ekki fækkað í ráðherraliði Framsóknarflokksins.
Þetta hljómar eitthvað einkennilega.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006