Í innlendum fréttum er það helst að beljubændur dunda sér við að maka sólarvörn nr. 8 á júgrin á Búkollu og vinkonum hennar, svo þau sólbrenni nú ekki í blíðunni. Á meðan fjalla erlendar fréttir um vondu stjórnvöldin í Indónesíu sem neita að dreifa hrísgrjónafjalli sem „liggur og rotnar í vörugeymslum“, þar sem það hefur verið í heila sjö mánuði.
Horfum fram hjá þeirri fjarstæðu að hrísgrjónin liggi undir skemmdum nema þeim verði dreift í skyndingu. Inni í skáp hjá mér á ég hrísgrjón sem endast vel fram á árið 2006 samkvæmt pakkanum og ég hef engar áhyggjur af því að þau verði ekki ágæt í eitt eða tvö ár eftir það, eða til 2008. Það er líka vel þekkt meðal þjóða sem borða meira af hrísgrjónum en Íslendingar (og búa við ótraustara bankakerfi) að fjárfesta sparnað fjölskyldunnar í hrísgrjónum og geyma í kjallaranum um óákveðinn tíma.
Svo ef hrísgrjónin eru að rotna í vörugeymslunni er eitthvað annað að en drátturinn á dreifingu þeirra. Annaðhvort er mikill saggi í geymslunni, eða hrísgrjónin hafa ekki verið meðhöndluð rétt áður en þau voru sett þangað. Líklegast er þó að þetta sé tómt froðusnakk og það sé allt í lagi með hrísgrjónin, það hljómar bara betur að þau séu að skemmast. En burtséð frá því, eru ekki Indónesísk stjórnvöld að gera vonda hluti með því að neita að dreifa hrísgrjónunum?
Það er langt í frá einfalt mál að meta hvort Indónesísk stjórnvöld séu að hegða sér skynsamlega. Þau banna reyndar allan innflutning á hrísgrjónum, sem ekki er til fyrirmyndar út frá hagfræðilegu sjónarmiði. En þeim til málsbóta vill reyndar svo til að ágæt hagfræðileg rök mæla gegn matargjöfum til þróunarlanda nema í algerum neyðartilfellum.
Því rök stjórnvaldanna um að innflutningur á hrísgrjónum grafi undan bændum landsins eru rétt. Það er líklegt að dragi úr hrísgrjónarækt í Indónesíu ef hægt er að flytja inn hrísgrjón á lægra verði en kostar að framleiða þau þar. En ólíkt hrísgrjónum sem keypt eru á markaðsverði er engin trygging fyrir því að gjafir á borð við þá sem nú liggur og „rotnar“ haldi áfram að standa til boða um ókomna tíð.
Indónesískum stjórnvöldum er því ákveðinn vandi á höndum. Þau vilja koma í veg fyrir að fólk svelti, en þau vilja líka koma í veg fyrir að indónesískir bændur gefist upp á sinni ræktun vegna samkeppni við ókeypis hrísgrjón.
Miklu heppilegra hefði verið að hrísgrjónagjafinn hefði gefið beinharða peninga til að kaupa indónesísk hrísgrjón af indónesískum bændum og dreifa til fátækra Indónesa. En það þjónar ekki hagsmunum gjafans. Talsverðar líkur eru á að hrísgrjónafjallið komi frá Bandaríkjunum, þar sem það er ræktað á ríkisstyrkjum. Bændalobbýið í Bandaríkjunum tryggir að bandarísk hrísgrjón séu keypt af ríkinu og svo gefin út um allan heim, líkt og hugmyndir voru uppi um að gera við lambakjötsfjallið íslenska fyrir einhverjum árum síðan.
Indónesísk landbúnaðarstefna er eflaust vond. En það er sú Bandaríska líka. Og landbúnaðarstefna Íslands er skelfileg. Því væri fréttastofu RÚV nær að fjalla um önnur stjórnvöld sem neita að opna landamæri sín fyrir innflutningi, þrátt fyrir að fólk svelti, nefnilega þau íslensku. Það eru reyndar ekki Íslendingar sem svelta, en vegna innflutningshafta Íslands og Evrópusambandsins missir fátækt fólk í þriðja heiminum möguleikann til að framleiða vörur sem neytendur í þróuðu ríkjunum gætu annars keypt. Fólk sem annars gæti unnið við vefnað eða matvælaframleiðslu neyðist því til að betla, eða jafnvel svelta.
Þetta er málefni sem fréttastofan gæti fjallað um í stað þess að segja fréttir af sólarvörn kúa á Kjalarnesinu, tómstundabúðum á Laugum í boði ríkisins, eða vindgangi Íslendinga, líkt og hún hefur gert í vikunni.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020