Állinn Eric á fullu stími til Grikklands.
|
Mönnum var misjafnlega brugðið þegar í ljós kom að sundmaðurinn Eric Moussambani frá Miðbaugs-Gíneu yrði fjarri góðu gamni á ólympíuleikunum í Aþenu-borg. Állinn, eins og Eric er jafnan kallaður í kaldhæðni, var hamstola af reiði og taldi þetta vera versta áfall sem hann hafi orðið fyrir á lífsleiðinni. Upp úr dúrnum kom að í öllum hamaganginum hafði einhverri skrifstofublók hjá ólympíusambandi Miðbaugs-Gíneu tekist að klúðra umsókn Álsins, með þeim afleiðingum að honum var meinuð þátttaka á leikunum, en meistari Eric öðlaðist heimsfrægð á svipstundu á ólympíuleikunum í Sidney-borg árið 2000 þegar hann synti 100 metra skriðsund á tæpum sjö mínútum. Sem er reyndar ekki svo slæmur tími—ef menn eru að keppa alklæddir og skelþunnir í 1500 metra björgunarbaksundi!
Í huga pistlahöfundar er afrek Álsins á pari við afrek miðaldra breta sem skaust upp á stjörnuhimininn á vetrarólympíuleikunum fyrir rétt um 20 árum. Þannig ákvað Eddie “the Eagle” Edwards að það væri sterkur leikur í stöðunni að keppa fyrir hönd Englands í skíðastökki á ólympíuleikunum án þess að vera að eyða tíma sínum í eitthvað jafnþreytandi og að æfa sig. Hann mætti því bara reynsluslaus í gallabuxum á leikana, leigði sér stökkskíði og lúffur—og lét sig síðan bara gossa fram af 70 metra háum palli og lifði til að segja frá því.
Geri aðrir betur.
Állinn og Örninn vissu þó allan tímann að þeir ættu enga möguleika á sigri en þeim tókst engu að að fanga bæði hug og hjörtu áhorfenda með skemmtilegri framkomu sinni. Verst er þó þegar íþróttamenn af svipaðri hlaupvídd og Eric og Eddie fatta ekki hversu lélegir þeir eru og virðast sannfærðir um að ólympíugullið sé þeirra. Þannig skilur pistlahöfundur engan veginn hvernig menn nenna að þvo allt íþróttadraslið sitt, pakka því niður í tösku og fljúga síðan á hjara veraldar til þess eins að lenda í 29. sæti í boðgöngu. Enn síður getur hann skilið hvernig menn fást til að setja hestinn sinn í kerru, panta far með fraktara til Ástralíu, pressa reiðbuxurnar, smyrja svipuna og lenda síðan í síðasta sæti í hindrunarstökki gæðinga. Þá er betur heima setið en af stað farið.
Auk þess sem hestamennska er bara ekki íþrótt sama hvað hver segir.
„Nú, jæja—á bara að fara að blammera hestaíþróttir“, kynni einhver sveitavargurinn að spyrja! Jáhá, það á svo sannarlega að gera það, kynni pistlahöfundur að svara til baka. Því ef hestamennska á að heita íþrótt, hvers vegna er hunda- eða hamstraeign ekki líka íþrótt?
En yfir í allt annað.
Af nýafstaðinni umræðu um Álinn og Örninn kemur það vel á vondan að gefa Einari Vilhjálmssyni, fyrrum Íslandsmeistara í spjótkasti og lélegum afsökunum lokaorðið í frekar súru helgarnesti dagsins: „Ég gerði mér snemma grein fyrir því að spjótkastinu fylgja meiri dagsfrávik hvað árangur varðar en í flestum öðrum íþróttagreinum. Hvað þá fyrir örvhenta kastara, því aðstæður í lofti eru ekki eins fyrir vinstri- og hægrihandarkastara, þar sem spjótið snýst um lengdaröxul sinn í gagnstæða átt hjá vinstri- og hægrihandarkösturum“.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007