Í súrrealískri vísindasmásögu eftir pólska rithöfundinn Stanislaw Lem er sagt frá risastórum dreka sem orðið hafði til við stærðfræðilega tilraun. Drekinn hafði búið um sig á tunglinu þar sem hann óx með hverju kvöldi og ógnaði öryggi jarðarinnar.
Menn stóðu ráðþrota gagnvart ógninni en ákváðu að ræsa til verks stærstu ofurtölvu sem þeir höfðu til að sjá hvaða ráð hún hefði. Eftir margra vikna útreikninga kom ofurtölvan loksins með svarið: „Búið til nýjan dreka sem er stærri en sá sem fyrir er og látið þá takast á.“
Þetta gerði mannfólkið af samviskusemi, reiknaði sig upp í nýjan dreka og sendi hann í átt til tunglsins. Þar drap nýi drekinn þann gamla, tók sér stöðu hans á tunglinu, óx með hverju kvöldi og ógnaði öryggi jarðarinnar. Ráðþrota spurðu menn aftur ofurtölvuna um ráð og væntanlega geta lesendur Deiglunnar getið sér til hvert svar hennar hafi orðið í þetta skipti.
Nú er langt síðan að ég las þessa sögu og man ekkert hvernig þessi spírall hafi að lokum endað, enda kannski aukaatriði. Boðskapurinn með sögunni er öllum ljós: ekki er vænlegt til langtíma að ætla sér að eyða vondu með enn verra.
Í ljósi þessa er ótrúlegt hve oft tilfinningar manna eða jafnvel utanríkisstefnur heillra þjóða byggjast á hugmyndum á borð hugmyndina með stærri drekann. Þegar glæpamenn deyja í uppgjörum glæpagengja hugsar venjulegt fólk oft, „Jæja, nú eru þrjóti minna eftir í heiminum.“ Líkt og dauði alræmds mafíósa þýði nokkuð annað en að þeir sem eftir eru séu enn öflugri.
Bin Laden er dreki. Saddam Hussein er dreki. Vonandi að mönnum gangi nú vel að láta eyða þeim burt af yfirborði jarðarinnar, (með hjálp annarra dreka). Um daginn sáum við myndband frá áður óþekktum samtökum í Írak sem hótuðu „hæstráðanda“ al-Kaída þar í landi öllu illu. Gott efni í nýjan og stærri dreka sýnist manni.
Auðvitað er það ljóst að styrkur hryðjuverkasamtaka felst ekki í þeim persónum sem stýra þeim hverju sinni. Menn munu koma í manna stað. Að því sögðu segi ég ekki að ég hafi neina hugmynd um hvernig sigrast skuli drekum, stórum eða litlum. Ég er víst ekki einn um það miðað við hve gjarnan menn grípa til þeirra aðferða sem ofurtölvan í súrrealísku vísindasmásögunni eftir Stanislaw Lem lagði til.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021