Það fyrsta sem frambjóðandi sem er hvorki Repúblikani né Demókrati þarf að gera til að geta yfir höfuð hafið kosningabaráttu er að koma sér á kjörseðil. Hér skal taka fram að kosningareglur eru mjög misjafnar milli ríkja, svo að varast ber að alhæfa um of. Hins vegar er sú tilhneyging mjög ríkjandi að kosningalögunum er ætlað að takmarka möguleika þriðju framboða til að koma í veg fyrir að þeir „skemmi fyrir alvöruframbjóðendum“, eins og það er orðað (sk. spoiler effect).
Í annan stað þarf frambjóðandi að berjast fyrir því að koma fram undir merki þess flokks sem hann býður sig fram fyrir. Algengt er að tiltölulega auðvelt er að fara fram sem óháður frambjóðandi en leiðin til framboðs undir merkjum sérstaks flokks er þyrnum stráð. Til dæmis er tekið fram að aðeins stærri flokkar (e. Major Party) megi birta nafn flokks við hlið nafns frambjóðandans og skilgreiningin á „stærri flokkum“ er látin falla að stóru flokkunum tveimur einungis.
Algengasta leið til að halda utan um hvaða flokkar teljist „stórir“ flokkar er með skráningu kjósenda. Athygli vekur að í um helmingi fylkja er það ríkið sjálft sem heldur utan um hvaða flokki kjósendur tilheyra. Þegar menn skrá sig til kosninga tilgreina þeir um leið flokk sinn og fjöldi skráðra kjósenda bak við hvert framboð sem ákveður lagalega stöðu flokks.
Síðan er það auðvitað svo að þegar nýir kjósendur í þeim fylkjum skrá sig þá þeir lista af flokkum sem þeim býðst að tilheyra. Á þeim lista eru aðeins, alvöruflokkar birtir, sem gerir stöðu nýrra framboða en erfiðari.
Í þessum dæmum kristallast ákveðinn vandi lýðræðisins. Þeir sem sitja við völd eru óneitanlega í betri aðstöðu en þeir eru í stjórnarandstöðu þegar kemur að kosningum. Ekki aðeins geta þeir beitt áhrifum sínum til að taka popúlískar ákvarðanir stuttu fyrir kjörið heldur ráða þeir einnig heilmiklum tækjum til að hafa áhrif á framkvæmd kosninganna og nýta þau sér í vil.
Gegnum tíðina hafa einnig komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig takmarka skuli fjárstreymi til stjórnmálaflokka frá einkaaðilum. Þær hugmyndir eru ítrekað settar fram í anda þess að minnka spillingu og ítök hagsmunahópa inn í stjórnmálalífið. Settar eru reglur sem banna ákveðnum fyrirbærum að styðja stjórmálaöfl eða setja þök á hámarksstuðning til þeirra.
Slíkar hömlur eru að sjálfsögðu mjög slæmar fyrir ný framboð. Rótrónir flokkar hafa þegar komið sér upp húsnæði og mannskap og geta því komist af með minni fjármuni. Slíkan munað geta nýliðar ekki leyft sér.
Til að lýðræðið sé virkt þarf að tryggja að núverandi valdhafar og rótgrónir flokkar geti ekki misnotað aðstöðu sína og að kosningareglur gildi jafnt um alla. Það kemur manni svo sífellt á óvart hve langt sumir eru tilbúnir að ganga til að koma í veg fyrir einhvers konar lýðræðisleg „slys“. Sem felast í því að þeir sjálfir missi völdin.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021