Múrinn er nógu skitsó nú um stundir án þess að landflótta hægrimenn bætist þar við. Úr Fréttablaðinu.
|
Það væri nú hellt í bakkafullan lækinn að ætla að stofna til ritdeilu við Múrinn þessa dagana. Múrverjar hafa að undanförnu verið fullfærir um það sjálfir og tekist kröftulega á, án utanaðkomandi aðstoðaðar. Er Múrinn fyrsta sjálfbæra vefritið?
Nýlega birti Múrinn lesendabréf þar sem færð voru rök fyrir því hvers vegna dóp væri betra en nauðgun. Þeim skrifum var svarað kröftulega. Af Múrnum.
Eins og þetta væri nú ekki nógu kjánalegt þá birtist skömmu síðar svo enn eitt svar við annarri aðsendri grein. Eða, ja, grein. Heilum greinabálki sem bar hinn girnilega titil „Nokkur atriði í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna.“
Slíkar stefnumótunartrílógíur birtast af og til á hinum og þessum vefmiðlum. Þær er, eflaust, skemmtilegt að skrifa en leiðinlegt að lesa. Ég er enn að ná mér eftir Framtíð Reykjavíkurlistans I-III eða Stjórnmálahorfur á miðju sumri I-III á Maddömunni eða Framtíð Samfylkingarinnar I-XXI á Kreml og hvað þetta allt nú hét.
En til að vera bara svona temmilega ósanngjarn þá er ljóst að ég er ekki rétti maðurinn til að dæma greinarbálkinn „Nokkur atriði í stefnuumræðu fyrir íslenska byltingarsinna“ af fagmennsku. Greinar sem hefjast á orðunum „Höfuðandstæðingur okkar er íslenskt einokunarauðvald. Hinumegin stendur íslensk alþýða og verkalýðsstéttin þar fremst“ eru augljóslega ekki stílaðar inn á lífsvillta frjálslynda hægrimenn. Kannski ættu þeir því að halda sig til hlés og láta uppreisnarhvatningar sér sem vind um eyru þjóta.
En eins áður sagði voru það ekki bara einokunar- og auðvaldssinnar eins og ég sem voru skeptískir á efni umræddra Múrpistla. Sverrir Jakobsson sá allavega ástæðu til að svara greinabálknum. Á Múrnum.
Já, það er ekki hægt annað en að brosa út í bæði þegar byltingarsinnar og umbótasinnar úr röðum íslenskra sósíalista deila á síðum víðlesins vefrits árið 2004. Skemmtileg „retró“ tilfinning. Ég sem hélt að þessi umræða hefði verið kláruð fyrir þó löngu síðan. (En þori að segja hvenær af ótta við að vera besservisseraður niður í gólf.)
Það vita það allir pistlahöfundar að það er gaman að fá viðbrögð við því sem menn skrifa. Jafnvel þótt um gagnrýni sé að ræða. Kannski eru Múrverjar að peppa hver annan upp með því að búa til svör við pistlum sem annars yrðu fljótir að gleymast. Hver veit, kannski mun þessi helgarpistill líka kalla á viðbrögð frá Múrnum?
Ef þeir verða uppiskroppa með eigið efni til að andmæla.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021