Það hefur ekki verið sérlega bjart yfir samningamönnum WTO á síðustu mánuðum. Á síðasta ári sigldi allt í strand í Cancun í Mexíkó og útlit var ekki sérlega gott fyrir síðasta fund samningamanna í Genf. Mestar deilur standa á milli ríkra og fátækra ríkja og verður að segjast eins og er að það er ekki hægt að hafa nema takmarkaða samúð með málstað ríku landanna.
Meðal þess sem ríku löndin hafa lagt áherslu á upp á síðkastið eru einhvers konar alþjóðlegir atvinnustaðlar. Þessum kröfum var hent út af borðinu í þessari samningalotu enda eru slíkar kröfur lítið annað en lítt dulbúin verndarstefna fyrir verkamenn iðnvæddu ríkjanna í samkeppni við verkamenn í fátæku ríkjunum. Verkamannasambönd heimsins leggja mikla áherslu á að halda uppi málflutningi sem byggist á misskilinni samúð við fólk í fátækum löndum sem er tilbúið til að vinna við verri skilyrði en það sjálft. Rétt eins og stóriðja þykir fela í sér tækifæri fyrir Íslendinga þá getur fataverksmiðja gjörbreytt lífsafkomu heilu landsvæðana jafnvel þótt laun og vinnuaðstæður séu ekki sambærilegar við það sem best gerist í velmegunarlöndum Vesturlanda.
Viðskipti með landbúnaðarvörur eru vitaskuld annar smánarblettur á fríverslunaráherslum Vesturlanda. Sums staðar í Afríku er hægt að kaupa niðurgreidda evrópska ávexti á mörkuðum á lægra verði heldur en innlendir framleiðendudur geta keppt við. Framleiðslustyrkir og útflutningsbætur eru því tvöföld eiturpilla fyrir þróunarlöndin sem hvorki fá tækifæri til að flytja út vörur sínar á ríka markaði né þróa innlenda framleiðslu í friði frá niðurgreiddri erlendri vöru. Það að skapa slíkt ástand er stórglæpur gagnvart efnahagskerfum landa sem lítilla skakkafalla mega verða við.
Á það hefur ítrekað verið bent að stefna íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum sé einhver sú þröngsýnasta sem um getur. Reyndar eru útflutningsbætur ekki lengur algengar hér á landi en niðurgreiðslurnar og innflutningshöftin þjóna engu að síður sínum tilgangi. Hér teljast menn heppnir að krækja sér í dós af Philadelphia osti á uppsprengdu verði og aðgengi og verðlag á flestum öðrum erlendum landbúnaðarafurðum er eftir því.
Frjáls verslun er vitaskuld engin töfraformúla sem leysir öll heimsins vandamál. En áhrif frjálsrar verslunar eru hins vegar töfrum líkar því engin önnur pólitísk aðgerð er líkleg til sprauta jafnmiklum krafti í hagkerfi og samfélög. Þetta hafa Íslendingar reynt á síðustu árum þar sem frelsi í atvinnulífi hefur stóraukist með þeim árangri að velmegun vex hröðum skrefum. Við eigum að berjast fyrir því að fleiri í heiminum verði slíkrar gæfu aðnjótandi. Ísensk stjórnvöld eiga því að hætta að leggja sinn litla stein í götu fríverslunar heldur taka henni fagnandi og gera allt sem má til þess að tryggja að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í alþjóðlegri samkeppni.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021