Þónokkur umræða hefur verið um kynjahlutföll í stjórnum skráðra félaga í Kauphöll Íslands. Á vormánuðum sýndi úttekt viðskiptablaðs Morgunblaðsins að hlutfall kvenna í stjórnun félaga í úrvalsvísitölu aðallista Kauphallar Íslands væri aðeins 2,3%. Aðeins tvær konur eiga sæti í stjórnum þeirra 15 félaga er mynda aðallistann en alls eru 85 stjórnarsæti frátekin fyrir karla. Það vekur athygli að hlutfallið hefur farið lækkandi frá árinu 2000.
Í þessu sambandi er fróðlegt að athuga hlutföll kynjanna í stjórnum sparisjóðanna. Alls eru starfandi 24 sparisjóðir á landinu og skipa fimm stjórnarmenn stjórn hvers sparisjóðs. Skv. tölum frá Sambandi sparisjóða eru 15 konur í stjórnum þessara sparisjóða. Hlutfall kvenna í sparisjóðastjórnunum er því 12,5% samanborið við 2,3% í stjórnum félaga á aðallistanum eða rúmlega fimm sinnum hærra. Þrír sparisjóðsstjórar eru konur en til samanburðar fer engin kvenkyns forstjóri eða bankastjóri fyrir einhverju þeirra 40 félaga sem eru skráð í Kauphöllina.
Stjórnir sparisjóða eru skipaðar með þeim hætti að stofnfjáreigendur kjósa þrjá stjórnarmenn og sveitarfélag tilnefnir tvo. Heimilt er skv. lögum að stofnfjáreigendur kjósi alla stjórnarmenn. Ýmislegt bendir til þess að hjá þeim sparisjóðum sem stofnfjáreigendur velja alla stjórnarmenn eigi konur auðveldara með að brjótast til áhrifa. Í stjórnum Sparisjóðs Kópavogs og SPRON sitja tvær konur í stjórn hvors sjóðs. Í stjórn Sparisjóðs vélstjóra, sem situr einnig í umboði stofnfjáreigenda, situr ein kona. Þriðjungur stjórnarkvenna í sparisjóðum sitja í stjórnum þessara þriggja sparisjóða en þar eru stofnfjáreigendur fjölmennir og kjósa alla sína stjórnarmenn.
Þótt hlutfall kvenna í stjórnum sparisjóða sé mun hærra en í stjórnum skráðra félaga í úrvalsvísitölunni gæti það verið enn hærra. Sveitarstjórn sem útnefnir einstaklinga í stjórnir sparisjóða er í lófa lagið að fjölga konum ef vilji er til þess. Hlutföll kvenna í ráðum og nefndum opinberra aðila og stjórnum opinberra fyrirtækja er að öllum líkindum mun hærra en hjá einkageiranum.
Þar sem gera má ráð fyrir því að fleiri konur en karlar starfi fyrir sparisjóðina og að viðskiptavinir þeirra séu aðallega einstaklingar gæti það orðið snjall leikur út á við að fjölga konum í stjórnum þeirra. Samkeppni fjármálafyrirtækja er afar hörð og þurfa sparisjóðirnir að taka á öllu sínu í baráttunni við risana – viðskiptabankana svokölluðu.
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021