Fréttir í plastumbúðum

Í undirblaði Fréttablaðsins „Öllu“ birtast stundum stuttar kynningargreinar um hinar og þessar áfengistegundir. Hverjum sem rýnir í þessar „greinar“ má þykja ljóst að þær eru kostaðar af umboðsaðilum viðkomandi drykkja. Þannig hefur greinastúfurinn um Egils Pilsner, ódýrasta bjórinn í Ríkinu, birst tvisvar að minnsta kosti, eflaust oftar. Hins vegar má segja að menn hafi nú sett nýtt met með kynningar“grein“ sem birtist í blaðinu fyrir helgi.

Í undirblaði Fréttablaðsins „Öllu“ birtast stundum stuttar kynningargreinar um hinar og þessar áfengistegundir. Hverjum sem rýnir í þessar „greinar“ má þykja ljóst að þær eru kostaðar af umboðsaðilum viðkomandi drykkja. Þannig hefur greinastúfurinn um Egils Pilsner, ódýrasta bjórinn í Ríkinu, birst tvisvar að minnsta kosti, eflaust oftar. Hins vegar má segja að menn hafi nú sett nýtt met með kynningar“grein“ sem birtist í blaðinu fyrir helgi.

Óháð því hvaða álit menn hafa á áfengisauglýsingabanninu hljóta menn hið minnsta að fá nettan kjánahroll þegar menn lesa eftirfarandi orð birtast á prenti í stærsta dagblaði landsins:


Pilsner í plastflöskum

Í júní kom á markaðinn Pilsner 4,5% bjór á plastflöskum, með skrúfuðum tappa. Bjórinn er seldur í átta flösku pakkningum í stað sex sem menn eiga að venjast. Umbúðirnar eru nettar og léttar og átta plastflöskur taka svipað pláss og sex dósir í pakkningu. Plastflöskurnar tryggja 16 vikna geymsluþol

vörunnar og eru gerðar úr þriggja laga plasti sem varðveitir ferskleika og gæði vörunnar. Með plastflöskunum er verið að koma til móts við neytendur og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Hægt er að fullnýta vöruna við öll tækifæri. Með skrúfuðum tappa er hægt að loka flöskunni og varðveita gæði og ferskleika bjórsins. Plastflöskurnar hvorki beyglast né brotna og henta því vel fyrir ferðalög af hvaða tagi sem er. Hægt er að leggja bjórinn frá sér á víðavangi án þess að óttast að hann hellist niður. Fín lausn fyrir íslenskir[sic] ferðalanga um þessa miklu útivistarhelgi. Pilsner í 0,5L plastflöskum er með ódýrustu bjórum í Vínbúðum, líkt og Pilsner í dós sem verður að sjálfsögðu áfram fáanlegur.

Fáum dylst að núverandi bann við áfengisauglýsingum er tímaskekkja. Fyndin útúrsnúningur á slíku banni getur verið jafnt góð auglýsing sem og heppileg leið í baráttunni fyrir breytingu á lögunum. Tilgangur með slíkum útúrsnúningum ætti þó fyrst og fremst að vera að snúa á lögin sjálf fremur en að blekkja neytendur. Það hefur sjaldnast skilað miklu ef neytendunum sjálfum finnst þeir vera hafðir að fíflum.

Hvergi er hægt að sjá annað en að umræddar greinar séu hluti af venjulegu efni blaðsins. Hvergi er minnst á að um aðkeyptar greinar sé að ræða sem auðvitað hlýtur að vera nema ef vera skyldi að Fréttablaðið hafi ráðið til sín einhvern stjarnfræðilega gagnrýnislausan sumarstarfsmann til að skrifa lofgreinar um bjórtegundir.

Ég ætla ekki að gera eins og svo margir og krefjast þess að eitthvað opinbert vald grípi inn í og stöðvi þessar greinar. En ég vona hins vegar að Fréttablaðið sjálft hætti að verða sér til minnkunar. Eða allavega geri það með aðeins lúmskari hætti.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.