Þau tíðindi bárust í síðustu viku að neyðarkall hefði borist frá hálendinu gegnum talstöð þess efnis að tuttugu manns hefðu veikst þar hastarlega og fengið niðurgang eftir að hafa innbyrt einhver kynstri af kjúklingabitum. Talið var að annaðhvort væri um að ræða hóp Frakka, eða hóp krakka, og þótti hinn fyrrnefndi hópur líklegri.
Björgunarsveitarmenn voru strax sendir til leitar og leituðu þeir í nokkra daga en leit hefur nú verið hætt. Gripu björgunarsveitarmenn í tómt og fundu hvorki vott né þurrt af fólkinu, hvorki tangur né tetur. Fljótlega fór menn að renna í grun að um gabb gæti hafa verið að ræða þar eð engin ferðaskrifstofa kannaðist við hópinn og enginn saknaði í raun neins. Í viðtölum, m.a. við sýslumann Rangæinga, kom fram að um væri að ræða alvarlegan refsiverðan verknað ef rétt reyndist.
Hér verður ekki dregið úr alvarleik þess verknaðar að gabba lögreglu og björgunarsveitir til að hópast upp á hálendi í leit að engu. Þetta er mjög ámælisverð háttsemi á siðferðilegan mælikvarða. Aðeins verður á það bent hér, sem kemur kannski ýmsum á óvart, að verknaður þessi er ekki mjög alvarlegur á lagalegan mælikvarða.
Í 120. gr. almennra hegningarlaga er gabb sem þetta gert refsivert. Ákvæðið hljóðar svo:
Ef maður gabbar lögreglumenn, brunalið, björgunarlið eða annað hjálparlið, með því að kalla eftir hjálp að ástæðulausu eða með misnotkun brunaboða eða annarra hættumerkja, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum
Það er því ekki gert ráð fyrir háum refsingum fyrir gabb. Raunar eru efri mörk refsirammans mjög lág miðað við önnur refsiákvæði í hegningarlögunum. Af þessum sökum fer gabb, að alvarleika til, í hóp með ýmsum smábrotum sem hafa sama refsiramma. Þar má sem dæmi nefna:
– að taka burt eða skemma auglýsingu sem sett hefur verið upp af hálfu hins opinbera,
– að raska fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu,
– að trufla opinbera guðsþjónustu eða aðrar kirkjuathafnir,
– að guðlasta,
– að hnýsast í hirslur annarra án nægilegra ástæðna.
Í dómaframkvæmd hafa menn, samkvæmt lauslegri athugun undirritaðs, aldrei fengið fangelsisdóm fyrir gabb. Annaðhvort hefur verið beitt sektum eða ákvörðun um refsingu hefur verið frestað skilorðsbundið. Reyndar hefur í þeim tilvikum verið um að ræða gabb með þeim hætti að hinir dæmdu hafa skotið upp neyðarflugeldum sem leitt hefur til þess að leit hefur farið í gang. Háttsemi sú sem um er að ræða í tilviki hinna tuttugu Fransmanna verður að telja alvarlegri verknað.
Það er umhugsunarefni hvað mönnum gengur til með gabbi sem þessu. Líklega hefur verið um að ræða fíflalæti eða ærsl, eða kannski hvort tveggja. Alltént hefur gamanið kárnað þegar alvarleiki málsins rann upp fyrir ærslabelgjum, nema að þeir hlæi að öllu saman. Ólíklegt er að þeir gefi sig fram, og ekki er líklegt að þeir finnist án þess að þeir gefi sig fram af fúsum og frjálsum vilja, í ljósi þess að um var að ræða opna talstöð. Ærslabelgirnir munu því að líkindum ganga lausir um götur þessa lands.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006