Í kringum umræðu um fjölmiðlafrumvarpið tókst jafnvel vinstrigrænum að beita fyrir sér frjálshyggjurökum af og til. Nýlegar yfirlýsingar Árna Þórs í fjölmiðlum, varðandi Austurbæjarbíó og strandsiglingar Eimskipafélagsins sýna svo ekki sé um villts að þeim stutta hlutverkaleik er lokið.
Fyrst ber að nefna Austurbæjarbíó. Forsagan verður ekki rakin hér en alla vega þá virðist Árni Þór vera búinn að taka þá ákvörðun upp á sitt að banna eigendum hússins að rífa það og reisa þar nýtt í staðinn. Rökin sem Árni Þór og aðrir íhaldsmenn hafa fyrir þessari ákvörðun sinni eru sannkölluð þungavigtarrök: „Húsið á sér merka sögu.“
Það voru einkaaðilar sem byggðu húsið. Það voru einkaaðilar sem áttu og ráku húsið. Það eru svo einkaaðilar vilja rífa það. Þetta snýst ekki um hvað okkur finnst flott og hvað ekki. Til að koma í veg fyrir að lögmætir eigendur geti ráðstafað eign sinni, þarf alvörurök en ekki væmni eða fegurðarskyn. Í Stjórnarskránni er allavega talað um „almannahagsmuni“ en ekki tilfinningarök í kringum sviptingu eignarréttar.
Svo við gleymum nú því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn virðist stefna á að miskunnarlausa hjásetu í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Þeir líka falla í þá gryfju að láta sem Borgarráð sjálft muni senda jarðýtur á lóðina við Snorrabraut. Hegðun Borgarfulltrúanna minnihlutans í þessu og öðrum málum,að halda má að álíka áhrifamikið væri, frá frelsissjónarmiðum séð, að henda atkvæði sínu ofan í brunn og að kjósa D-listann.
En það eru ekki bara byggingarverktakar sem þurfa að hafa fegurðarmat og siðferðisvitund Árna Þórs í huga þegar þær taka viðskiptaákvarðanir. Eimskipafélagið tók nýlega þá ákvörðun að hætta strandsiglingum innanlands enda telur fyrirtækið landflutinga hagkvæmari lausn. Árni Þór taldi sig hafa ástæðu til að tjá sig um málið í Fréttum Sjónvarpsins og kom hann þar fram fyrir hönd Hafnarsambands sveitarfélaga.
Hvað Árni Þór er nákvæmlega að fara með þessum pælingum væri gaman að vita. Sjálfur mundi ég telja að það væri ekki vitlaus hugmynd að láta vegfarendur í auknum mæli greiða fyrir afnot af vegum sem byggðir yrðu í einkaframkvæmd og væru hagkvæm viðbót við núverandi vegakerfi. En væntanlega hefur Árni einhverjar félagslega réttlátari leiðir en ég í huga. Gaman væri ef íslenskir fjölmiðlar spurðu Árna að þessu. Gaman væri ef íslenskir fjölmiðlar stæðu vörð um eignarrétt annarra af helmingi þess ákafa sem þeir nota til að verja eiginn.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021