Stærsta ferðahelgi landsins er nú í algleymingi og hefur stór hluti þjóðarinnar sett undir sig betri dekkin og haldið á vit ævintýrana. Áður en lagt er af stað í ferðalag og þessari stærstu ferðahelgi ársins er margt sem þarf að hafa í huga og gæta að. Gátlistar ferðafólks helgarinnar eru líklega eins mismunandi og fólkið er margt og taka mið af hlutum eins og aldri og áhugamálum, áfangastað, gistimáta, veðurspá og svo mætti lengi telja. Hið mikilvægasta á gátlistum allra hlýtur þó að vera að gæta þess að koma heill heim. Það sem ekki er síður mikilvægt á listanum er að gæta þess að aðrir komi heilir heim.
Það er almenn vitneskja að umferðarþyngsli á þjóðvegum þessa helgi eru mikil og því ætti að vera auðvelt að búa sig undir það andlega að framundan sé bílferð þar sem þörf er á sérstakri aðgát, bæði varðandi ökulag og búnað bílsins. Þó hefur sagan sýnt að alltof mörgum ökumönnum og bíleigendum virðist vera um megn að yfirfara bíl sinn, fylgja umferðarreglum og temja sér tillitsemi við aksturinn. Af einhverjum ástæðum lítur út fyrir að öryggi þeirra og annarra sé einskis virði í samanburði við það sem bíður þeirra á áfangastað og því fullkomlega þess virði að leggja í hættu.
Á vefsíðu umferðarstofu er að finna ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um umferðarslys síðustu ára. Nýjustu tölur sem þar er að finna eru frá árinu 2002 og þar kemur fram að á því ári hafi orðið 22 banaslys á landinu, þar af 2 í þéttbýli og 20 í dreifbýli. Fjöldi látinna var 29. Fjöldi slysa þar sem alvarleg meiðsl urðu á fólki voru 130, þar af 77 í þéttbýli og 53 í dreifbýli. Fjöldi alvarlega slasaðra var 164. Hér verða ekki sundurliðaðar tölur um fjölda slysa með minniháttar meðslum eða fjölda óhappa með eignatjóni en umferðaróhöpp á árinu 2002 voru samkvæmt skýrslunni alls 7832.
Á ofangreindri vefsíðu er sem áður sagði að finna tölfræðilegar upplýsingar nokkur ár aftur í tímann. Ef teknar eru saman tölur frá árinu 1993-2002 kemur í ljós að á tímabilinu létust 211 manns í 184 umferðarslysum. Að meðaltali urðu því á tímabilinu 18,4 banaslys í umferðinni á ári sem í létust 21,1 manns.
Á litlu landi sem Íslandi eru þetta sláandi háar tölur og ljóst á vefsíðunni að verslunarmannahelgin hefur tekið sinn toll. Sorglegt er að hugsa til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir mörg þessara slysa með aðgætni, varúð, tillitssemi og þolinmæði.
Auglýsingaherferð Umferðarstofu frá 2003 vakti mikla athygli og eru auglýsingar hennar enn í sýningu. Auglýsingaherferðin bar yfirskriftina „Ef þú bara…“ Um var að ræða mismunandi áhersluatriði, bílbelti, ölvunarakstur og hraðaakstur, og var tilgangurinn að sýna afleiðingar umferðarslysa fyrir þá sem fyrir þeim verða.
Í ár hefur Umferðarstofa staðið fyrir auglýsingaherferðinni „Hægðu á þér“, sem vakið hefur mikla athygli. Um er að ræða sjónvarpsauglýsingu, útvarpsauglýsingar og auglýsingar til birtingar í dagblöðum og á biðskýlum. Áhersluatriði auglýsinganna er ökuhraði, sem samkvæmt niðurstöðum slysarannsókna er meðal helstu orsaka banaslysa og annarra alvarlegra umferðarslysa hér á landi. Í auglýsingunni er ekki síst lögð áhersla á að draga fram afleiðingar umferðarslysa fyrir aðstandendur þeirra látnu eða slösuðu og er til þess notað afbrigði af þessu fallega ljóði Vatnsenda-Rósu.
Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veizt, hvað eg meina.
Langt er síðan sá eg hann,
sannlega fríður var hann,
allt, sem prýða mátti einn mann,
mest af lýðum bar hann.
Trega eg þig manna mest
mædd af tára flóði,
ó, að við hefðum aldrei sést,
elsku vinurinn góði.
Annar áróður Umferðarstofu en sá sem fram kemur í fjölmiðlum eru til dæmis slagorðaskilti í vegakanti til að vekja ökumanninn til umhugsunar um hraða sinn, bílbelti og fleiri áhættu þætti, ónýtir bílar í vegakanti og skilti sem sýna fjölda látinna á árinu. Tölurnar hér að ofan segja okkur að áróður þessi er mjög þarfur. Því miður sýna þær okkur þó einnig að það virðast alltaf vera einhverjir sem ekki geta tileinkað sér boðskap þeirra. Það verður því aldrei of oft brýnt fyrir ökumönnum landsins að fara varlega í umferðinni og hlýða þar skynseminni ekki síður en umferðarreglunum. Það er alveg ljóst að hver einasti ökumaður á að geta gert sér grein fyrir afleiðingum umferðarslysa og hvernig ber að varast þau. Þrátt fyrir það hafa 14 látist í umferðarslysum á árinu. Ekki þú vera næstur!
Allar heimildir fyrir þennan pistil eru fengnar á vef Umferðarstofu,
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008