Enn einu sinni hefur umræðan um áfengisauglýsingar skotið upp kollinum hérlendis, og einkum um það hvort gildandi lagaákvæði sem banna áfengisauglýsingar séu nægjanlega skýr. Hefur ákæruvaldið af ýmsum verið sakað um að vanrækja það hlutverk sitt að ákæra fyrir slík brot. Til að bregða á það nokkru ljósi við hvaða vanda ákæruvaldið á að glíma í þessu efni og sem smá innlegg í umræðuna verða hér rifjaðir upp tveir hressir og skemmtilegir dómar Hæstaréttar frá 9. áratugnum.
Í fyrri dómnum frá 5. desember 1985 var um það að ræða að ritstjórar tímaritsins Samúel voru ákærðir fyrir brot gegn banni við áfengisauglýsingum með því að hafa í janúar-hefti tímaritsins árið 1984 birt mynd af áfengisflösku og rammagrein með yfirskriftinni „Myer’s rjómaromm, hreinasta sælgæti“ sem talin var í heild sinni áfengisauglýsing í ákæru. Í greininni var talað um að Myer´s-rommið væri skemmtileg nýjung í drykkjarvali ÁTVR. Það væri tilbúinn kokteill frekar en líkjör sem samanstæði einvörðungu af rommi og rjóma. Útkoman væri hreinasta sælgæti. Í greininni sagði m.a. orðrétt: „Er rjómarommið ekki ósvipað á bragðið og drykkirnir „White Russian“ og „Alexander“, sem margir kannast við, og það er ekki ólíklegt að hinir fjölmörgu sem kaupa alltaf Bailey’s rjómaviskí í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, en það hefur ekki fengist í Ríkinu, muni fagna þessum valkosti.“
Við yfirheyrslur sögðust ritstjórarnir með athæfi sínu hafa verið að reyna að stuðla að bættri vínmenningu hérlendis. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti var áhersla lögð á að umfjöllunin hafi verið birt í tímaritinu eingöngu að frumkvæði ritstjórnar, en ekki innflutningsaðila (ÁTVR) og að hún væri lesendum til fróðleiks. Yrði samkvæmt því að telja að texti við ljósmynd sem ákært væri út af væri ekki auglýsing í skilningi þágildandi áfengislaga. Voru ritstjórarnir báðir sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Í hinum dóminum sem féll í Hæstarétti 16. janúar 1987 var stórkaupmaður í Reykjavík ákærður fyrir áfengislagabrot með því að hafa sem umboðsmaður danskra vínframleiðenda staðið að auglýsingu á dönskum kirsuberjavínum „Kirsberry, Danish Kirsberry“ á samkomu í veitingahúsinu Þórscafé í Reykjavík í janúar 1985 „með því að láta þar af hendi til dreifingar myndskreyttan bækling fyrir greinda víntegund og margskyns blöndur úr því áfengi og ennfremur látið af hendi til kynningar á áfenginu nokkurt magn af áfenginu, sem veitt var samkomugestum án endurgjalds,“ eins og sagði í ákæru. Í héraðsdómi sem staðfestur var í Hæstarétti var talið að athæfi stórkaupmannsins hafi ekki fallið undir hugtakið „auglýsing“ í skilningi áfengislaga. Það var rökstutt með því að ekki þætti í ljós leitt að kaupmaðurinn hafi vitað eða mátt vita að öðrum gestum veitingahússins en tilteknum boðsgestum yrði veitt áfengið og látinn bæklingurinn í té. Slíkur afmarkaður hópur gæti, að mati dómsins, ekki talist almenningur, en í reglugerðarákvæði sem sett var með stoð í lögunum kom fram að auglýsing væri tilkynning eða birting til „almennings.“
Af þessum dómum má sjá að ekki eru skýrar línur í því hvað fellur undir það að vera auglýsing í skilningi áfengislaga. Er enda erfitt að skilgreina með nákvæmum og tæmandi hætti í lagatexta hvað telst auglýsing og hvað ekki. Skilgreiningin verður alltaf að hafa fólginn í sér lágmarkssveigjanleika svo girt sé fyrir að ófyrirséð athæfi sem klárlega er auglýsing falli utan hennar.
Þrátt fyrir þetta verður ekki framhjá því litið að núverandi refsilagaákvæði mætti orða með skýrari hætti. Að minnsta kosti virðist ákvæðið gera ákæruvaldinu, og eflaust dómstólum einnig, nokkuð erfitt fyrir. Ákæruvaldið virðist vart vita í hvorn fótinn það á að stíga og við blasir að það ákærir aðeins þegar um augljós brot gegn auglýsingabanninu er að ræða. Önnur „minni“ brot eru látin óátalin. Óskýrleiki ákvæðisins er jafnframt bagalegur fyrir framleiðendur og innflytjendur áfengis. Þeir geta ekki með nægjanlegri vissu vitað hvenær þeir gerast brotlegir við refsiákvæðið og hvenær ekki. Þeir eru alltaf á hinu svonefnda „gráa svæði“. Helst þyrfti að draga úr þessari réttaróvissu með skýrara lagaákvæði. Best væri þó að fella bannið úr gildi.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006