Á undanförnum misserum hefur ríkt mikið stjórnskipulegt óvissuástand á Íslandi. Allt frá því að fjölmiðlafrumvarpið svokallaða var lagt fram hafa lögspekingar deilt um stjórnarskrána. Fyrst var deilt um ákvæði frumvarpsins sjálfs og næst var deilt um það hvort forsetinn hefði synjunarrétt. Eftir að forsetinn hafði notfært sér þetta umdeilda ákvæði þá tóku við deilur um það hvernig framkvæma skyldi þjóðaratkvæðagreislu, því næst hvort draga mætti lögin til baka og setja önnur lítillega breytt í staðinn, og nú síðast er deilt um það hvort löggjafinn geti fellt lögin úr gildi áður en atkvæðagreiðslan fer fram og setja engin í staðinn.
Margir hafa fagnað þeirri ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að synja hinum svokölluðu fjölmiðlalögum um undirskrift vegna þess að þar með hafi ákvæðið um málskotsrétt forsetans verið virkjað. Bent er á að æskilegt sé að vald sé vegið upp með valdi, þ.e.a.s. að ákveðið valdajafnvægi myndist, og í þessu tilfelli milli löggjafans og þjóðkjörins forseta.
Þess háttar hugsun er góðra gjalda verð en ef að fara á þessa leið þá þarf að ganga alla leið og umbreyta allri stjórnskipans landsins til þess sem þekkist í Bandaríkjunum þar sem að forsetinn er virkur stjórnmálamaður. Slíkt gæti þó gengið illa upp á Íslandi. En það gengur ekki að einn maður sé upp á sitt einsdæmi að gera tilraunir með stjórnskipan landsins og þær hefðir sem þar ríkja. Vissulega var synjunarheimildin fyrir hendi hjá forsetanum, en það er spurning hversu æskilegt það sé að einn maður fari með slíkt vald miðað við núverandi kerfi. Forseti er þjóðkjörinn, en löggjafasamkoman er einnig kjörin af fólkinu í landinu. Þar þurfa fulltrúar fólksins svo að koma sér saman um meirihluta til þess að mál nái fram að ganga.
Rætt er um málsskotsrétt forsetans sem öryggisventill þjóðarinnar gagnvart ríkjandi valdhöfum. Í röksemdafærslu forsetans fyrir því að synja fjölmiðlalögunum undirskriftar taldi hann sig hafa skynjað “gjá milli þings og þjóðar”, sem sagt, þá beitir hann huglægu mati síns sjálfs. Þetta huglæga mat eins manns er stór veikleiki á núverandi kerfi. Hvað ef forsetinn er stuðningsmaður sitjandi ríkisstjórnar, jafnvel gamall flokksformaður í ríkjandi ríkisstjórnarflokki. Er þá ekki öruggisventillinn ónýtur þar sem forsetinn beitir alltaf huglægu mati og gæti horft framhjá “vilja” þjóðarinnar og undirritað lögin.
Kerfið er slæmt í núverandi mynd. En ákveðið valdajafnvægi er nauðsynlegt og öryggisventill þjóðarinar gagnvart þingi þarf að vera til staðar. Nær væri því að færa málsskotsréttinn til þjóðarinnar sjálfrar þar sem um raunverulegt inngrip kjóenda væri þá um að ræða. Hægt væri að hugsa sér að ákveðinn hluti kjósenda, hlutfall eða fjöldi gæti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar þyrfti t.d. þriðjungur kosningabærra manna að lágmarki að fellu lögin og er slík regla ekki ósanngjörn, og í raun væri óeðlilegt að hafa ekkert viðmið þar sem þingið er ekki þarna fyrir tilviljun, heldur er það kosið af okkur kjósendum
Það er mál að núverandi orrahríð linni, þar sem engin raunverulegur sigurvegari stendur eftir. Núverandi kerfi er til þess fallið að valda deilum í þjóðfélaginu og því þarf að setjast niður og gera stjórnarskrána betri. Nauðsynlegt er að sem flestir komi að þeirri vinnu þannig að sátt ríki um stjórnskipun á Íslandi. Leikreglur þurfa að vera skýrar.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007