Fyrir nokkru var fór ég í sund og rakst á bunka af ólesnum Bændablöðum sem einhver vingjarnleg sál hafði skilið eftir handa sundlaugargestum. Í blaðinu var heilmikið af bændakyns greinum en þó rakst ég á eina sem augljóslega var meira extróvert en aðrar. Yfirbragð greinarinnar var „hvað getur ÞÚ gert til hindra að smitsjúkdómar berist til landsins“. Og svarið var auðvitað „ekki flytja inn hrátt kjöt frá útlöndum.“
Nú veit ég lítið um smitsjúkdóma. Ég get því lítið sagt um hvort það sé raunveruleg hætta að lúxemburgískar nautaflensur sem sem koma inn í landið með kjöti farþega, BANG, smeygi sér inn í íslenska kúastofninn. Einhvern veginn grunar mig þó að sjúkdómavarnir séu aðeins seinasta leið til að afsaka landbúnaðarlöggjöf sem íslenskum neytendum ofbýður æ meira.
Eða hvað? Eru þá einnig til sérstakir mjólkursjúkdómar sem smita íslenska mjólk? Voru þá til einhverjir erlendir ostasjúkdómar sem smitað gátu í íslensku ostana en hættu skyndilega að vera til fyrir nokkrum árum? Eða banvænir útlendir grænmetissjúkdómar sem voru aðeins hættulegir á þeim tíma sem íslenskt grænmeti var á markaði?
Íslendingar eru auðvitað ekki einir um það að viðhalda landbúnaðarstefnu sem er út í hött. En auðvitað eru það engin rök. Það algjörlega á skjön við þá reynslu sem við venjulega höfum af íslenskum embættismönnum að þurfa að bíða með öndina í hálsinum þegar labbað er framhjá tollvörðunum á Keflavíkurflugvelli. Menn vita aldrei. Innflutningur á óunnum kjötvörum er t.d. ekki heimilaður. Það virðist svo hins vegar vera háð geðþótta framsóknarlöggunnar hverju sinni í hvoran flokk hvers kyns spægipylsur falla. Stundum sleppa þær, stundum ekki.
Nýlega var ákveðið að mjólkurvörur skyldu halda áfram tilheyra miðstýrðum búskap um ókomna tíð. Það sem meira er, Guðni Ágústsson notaði tækifærið til að lofa þá markaðstegund sérstaklega. Hér væru sko allir búðareigendur loksins jafnir og tryggt var að bændur fengu „sanngjarnt verð“ fyrir vöruna og þetta tryggði svo líka að „verðmæt þekking flyttist ekki úr landi“. Ótrúlegt að hægt hafi verið að troða jafnmiklu kjaftæði í eitt viðtal en þetta hefur Guðna tekist.
Heppilegast væri að grípa til þess eina vopns sem við sem neytendur höfum: sniðganga íslenskar landbúnaðarvörur. Við getum t.d. byrjað á mjólkinni og lanbakjötinu. Lambakjötinu blessaða. Ókosturinn við þá aðferð er að líklegast verði þessar vörur keyptar, í okkar nafni, engu að síður. Eins og venjan hefur verið þegar markaður með einhverja landbúnaðarvöru hefur hrunið.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021