Allir vita að íslenskur landbúnaður er óhagkvæmur. Færri gera sér hins vegar grein fyrir því hversu ótrúlega óhagkvæmur hann er. Fyrir tveimur vikum birtust tölur um þetta efni á tölfræðisíðunni aftast í The Economist. Blaðið birti alþjóðlegan samanburð á opinberum stuðningi til bænda sem hlutfall af landbúnaðarframleiðslu. Hversu hátt haldiði að þetta hlutfall sé á Íslandi?
Ég skal gefa ykkur nokkrar vísbendingar. Í Ástralíu og Nýja Sjálandi er þetta hlutfall undir 5%. Í Kanada og Bandaríkjunum eða það tæplega 20%. Í Evrópubandalaginu, sem fæstir telja til fyrirmyndar hvað varðar styrki til landbúnaðar, er hlutfallið um 35%. Jæja, hvað haldiði að það sé á Íslandi? Varla er það mikið hærra en í Evrópubandalaginu?
Jú, á Íslandi nemur opinber stuðningur til landbúnaðar rúmlega 65% af landbúnaðarframleiðlu.
Þetta er náttúrulega klikkun.
Þetta þýðir að framleiðni í íslenskum landbúnaði þyrfti að aukast um rúmlega 250% til þess að hann gæti staðið undir sér. Framleiðnin þyrfti síðan að hækka annað eins til þess að bændu byggju við mannsæmandi kjör. Er eitthvað vit í að borga stórfé til þess að halda úti slíkri atvinnugrein?
Það sem meira er. Þetta hlutfall hefur nánast ekkert lækkað síðustu 20 ár. Um miðjan níunda áratug síðustu aldar var þetta sama hlutfall um 75%. Með sama áframhaldi mun það taka um 80 ár að helminga það. Vitaskuld er eðlilegt að íslenskum landbúnaði sé gefinn aðlögunartími. En er ekki helmingunartími upp á 80 ár einum of mikið af hinu góða?
Við erum reyndar ekki eina landið í heiminum sem borgar svona svakalega undir bændastéttina. Nokkur af hinum frjósömustu héruðum heims svo sem Noregur, Sviss og Japan gera þetta líka. Hvað er það við landbúnað sem gerir það að verkum að kjósendur út um allan heim vilja borga stórar summur til þess að passa að hann sé stundaður á eins óhentugum stöðum og hugsast getur?
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009