Sjö ára íslenskur polli mætti í byrjun septembermánaðar í fyrsta tímann sinn í L’École du Val St. André, grunnskóla í Suður – Frakklandi og fékk vægt áfall. Þarna voru jafnaldrar hans fluglæsir og skrifandi sem kepptust við að læra. Strákur og stelpa, hlið við hlið, á gömlum tréstólum með krítarrykið fyrir vitum sér. Skólalóðin var óspennandi, ekki eitt einasta leiktæki á svæðinu, einungis örfáar línur og hringir til þess að geta hlaupið í mynstrum og farið í kúluspil.
Hann var sá eini sem ekki var fluglæs, sá eini sem ekki gat skrifað tengiskrift og ekki margfaldað tólf sinnum sautján! Hvað var að gerast? Hann sem hafði þótt sérdeilis duglegur hér heima – var kominn fram úr áætlun skv. námskrá og var stoppaður af því allir áttu að vera á „sama stað”. Hann mátti ekki læra meira í bili.
Ári síðar kom guttinn heim til Íslands þá kominn á sama stig í getu og kunnáttu og 11 ára krakkar hér heima. Hann varð því undrandi að lenda í 3. bekk með börnum sem voru ekki enn byrjuð að læra eina einustu margföldunartöflu!
Grunnskólabörn í Frakklandi fá öðruvísi kennslu heldur en jafnaldrar þeirra hér á Íslandi. Þar er það kennarinn sem ræður og börnin sem hlýða. Foreldrar nánast afhenda grunnskólum börn sín og skrifa undir leyfisplagg í hvert skipti sem eitthvað er farið út fyrir almenna dagskrá s.s. vettvangsferðir o.fl. Krafan er að börnin séu öguð og sinni náminu. Þau sem ekki ná lágmarksárangri flytjast ekki milli bekkja.
Hvers vegna er þessi gríðarlegi munur á kunnáttu barna hjá jafnþróuðum löndum og Frakklandi og Íslandi? Ekki vil ég meina að við Íslendingar séum neitt verr gefin en aðrar þjóðir – þvert á móti. Ég tel að allt of oft sé dýrmætum tíma grunnskólabarna eytt í hangs og óþarfa endurtekningu. Börn þurfa að fá verkefni við hæfi til þess að áhugi þeirra á náminu dvíni ekki. Þau þurfa áskorun og hvatningu í hófi.
Vissulega verður að gæta þess að börn fái að njóta þeirra forréttinda að vera börn. Fái að njóta áhyggjuleysis og sakleysis. Grunnskólar hér á landi standa sig virkilega vel í að virkja sköpunargleði barna og eiga hrós skilið fyrir. Öll börn fá kennslu í myndlist, tónlist og handavinnu ýmiss konar. Einnig er aðstaða grunnskólabarna hér á landi með eindæmum góð. Nýjar tölvur og vel hönnuð húsgögn prýða flesta skóla. Leiktæki og aðrar tómstundagræjur er sjaldan ábótavant – mötuneyti komin upp víða – ekkert sem virðist aftra því að barni líði vel í skóla.
Ég tel að tíðar breytingar á námskrá sé engum til góðs – hvorki nemendum né kennurum. Kennarar fá ekki nægan tíma til að kynna sér námsefnið og nemendur fá nýjar bækur í nýjum bókaflokkum á hverju ári þar sem mismunandi kennsluaðferðir valda oft ruglingi hjá unga fólkinu. Börn læra því oft það sama ár eftir ár og eru orðin hundleið á sama staglinu. Nenna ekki að eyða tíma í lærdóminn þar sem sama námsefnið verði hvort eð er tekið fyrir að ári.
Að loknum 10. bekk eiga unglingar síðan að vera tilbúnir fyrir „stóra stökkið” – framhaldsskólann. Þar þurfa þau loks að taka á stóra sínum og verður það sumum hreinlega ofviða og gefast upp. Rætt hefur verið um styttingu menntskólanáms niður í þrjú ár. Mér fyndist réttara að hefja uppbyggingu í grunnskóla og endurskoða áherslur þar. Gapið er einfaldlega of stórt milli þessara tveggja skólastiga.
Má ekki nýta árin í leikskóla og í fyrstu bekkjum grunnskóla betur? Leyfa börnunum að spreyta sig í erfiðari þrautum um leið og þau fá útrás fyrir sköpunargleði sína. Setja markvissa námsskrá og fylgja henni fast eftir. Leggja meiri áherslu á einstaklingsmiðað nám og athuga þann möguleika að leyfa hverju og einu barni að fara á sínum hraða. Þetta hefur verið reynt í nokkrum löndum og lofar góðu. Sjálfsagt kosta slíkar breytingar mikla vinnu og peninga en er það ekki þess virði?
- Óheimilt eftir kl. 22 - 16. ágúst 2004
- Hvar erum við stödd? - 20. júlí 2004
- Viltu pening? - 9. september 2003