Morgunblaðið greinir frá því á forsíðu sinni á laugardaginn að finnskir hagfræðingar haldi því fram að vægi símafyrirtækisins Nokia sé orðið of mikið í finnsku efnahagslífi. Haft var eftir hagfræðingunum að gengi þessa eina fyrirtækis væri farið að ráða miklu um hvort hagvöxtur eða stöðnun ríkti í Finnlandi.
Fram kom í fréttinni að á undanförnum árum hefði Nokia staðið fyrir um fimm prósent af vergri þjóðarframleiðslu Finna og að rekja mætti 0,4 hagvaxtarprósentustig árin 2001 og 2002 til gengis fyrirtækisins. „Á síðasta ári sló hins vegar í bakseglin hjá því [Nokia] og þá var hagvöxturinn í Finnlandi 2% en ekki 2,2% eins og ella hefði orðið. Síðan hefur staðan versnað enn,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Í leiðara blaðsins er fjallað um forsíðufréttina. Þar er varað við því að Íslendingar setji öll eggin í sömu körfuna með tilvísun til efnahagslegra áhrifa Nokia í Finnlandi. „Vitaskuld verður aldrei hægt að bólusetja hagkerfi fyrir skakkaföllum, en staðan má heldur ekki vera þannig að fái eitt fyrirtæki kvef byrji allt hagkerfið að hósta,“ segir í leiðaranum.
Það er vandlifað í þessum heimi. Nokia hefur verið vítamínsprauta efnahagslífs Finnlands og reif landið með sér úr djúpri efnahagslægð í byrjun tíunda áratugarins. Einhverjir myndu vafalaust draga þá ályktun að umsvif og velgengni Nokia hafi verið sannkölluð þjóðargæfa Finnlands. Ef finnsku fyrirtæki gengur svo vel að það stendur undir stórum hluta af hagvexti þjóðarinnar þá hlýtur það að vera gott en ekki slæmt.
Ef við hugsum þá hugsun til enda hvernig koma hefði mátt í veg fyrir að finnska hagkerfið fengi hósta undan kvefi Nokia þá er erfitt að sjá hvernig lækningin hefi mátt stuðla að meiri almennri efnahagslegri hreysti í Finnlandi. Ef það eitt hefði verið markmið finnskra stjórnvalda að draga úr vægi Nokia hefði miklu verið fórnað.
Til dæmis hefði þessi staða ekki komið upp ef Nokia hefði verið skipt upp áður en það varð svona stórt, eða ef það hefði verið neytt til þess að flytja starfsemi sína til útlanda, eða draga almennt úr umsvifum sínum.
Ef Nokia hefði hætt við þetta nýtæknibrölt sitt og haldið sig í stígvélunum er náttúrlega vitað mál að misfellur í gengi félagsins hefðu ekki þau voveiflegu áhrif á finnskt efnahagslíf sem Morgunblaðið horfir nú fram á.
Hefði Nokia haldið sig í stígvélunum hefði „Nokia eggið” vitaskuld ekki vegið svo þungt í efnahagskörfu Finnlands. Hverjum slíkar aðgerðir hefðu gagnast er erfitt að segja til um – nema ef vera skyldi Sony – Ericsson og öðrum samkeppnisfyrirtækjum.
Ef kaupa þarf hugarró nokkurra finnskra hagfræðinga og ritstjórnar Morgunblaðsins með því að fórna 0,4 prósentustigum af hagvexti á ári undanfarin ár í Finnlandi verður það að teljast býsna dýrt.
Í stjórnmálum vegast gjarnan á öfl íhaldsemi og frjálslyndis. Íhaldsemin byggist á því að stöðugleiki, eða óbreytt ástand, séu meðal verðmætustu lífsgæða. Þetta er sjónarmið sem er hægt að skilja og virða – og vafalítið aðhyllast menn það í auknum mæli eftir því sem þeir eldast og eiga erfiðara með að sætta sig við breytingar. En það er engu að síður staðreynd að slík afturhaldssemi og fortíðarþrá er eitur í beinum efnhagslífsins og mun fyrr eða síðar koma niður á almennum lífsgæðum.
Það hefur vitaskuld áhrif þegar efnahagslífið fer úr stígvélunum í hlaupaskó. Það eru ef til vill meiri hætta á því að hagkerfi á hlaupum misstigi sig stöku sinnum. En það er engin spurning um að það kemst hraðar. Það að lengja eftir stígvélahagkerfinu getur verið skiljanlegt á umrótatímum – en það er hættulegt ef taugaveiklun út af breyttu landslagi í efnahagslífinu dregur máttinn úr þeim spretthörðustu. Það er uppskrift að stöðnun.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021