Gunnlaugur Jónsson, fjármálaráðgjafi, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið 24. janúar, síðastliðinn, þar sem hann setur fram rök gegn sköttum á arðgreiðslur milli fyrirtækja. Grein Gunnlaugs var svar við grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 13. janúar, síðastliðinn, þar sem ég færði rök fyrir þvi að skattur á arðgreiðslur milli fyrirtækja væru ákjósanleg leið til þess að sporna við hringamyndun í viðskiptalífinu.
Gunnlaugur hefur rétt fyrir sér hvað varðar nokkur af þeim atriðum sem hann nefnir. Spurningin er hins vegar hversu mikilvæg þau atriði eru og þá sérstaklega hvort þau séu það mikilvæg að þau vegi upp á móti ábatanum sem fylgir því að viðskiptalífið verði laust við viðskiptasamsteypur. Sum af þeim rökum sem Gunnlaugur nefnir standast hins vegar ekki. Hér fyrir neðan eru rök Gunnlaugs sett fram hvert í sínu lagi (skáletruð) og þeim síðan svarað. Greininni lýkur á umfjöllun um mikilvægt útfærsluatriði skatts á arðgreiðslur milli fyrirtækja sem hefur það markmið að hlífa fyrirtækjum sem eru alfarið (eða nánast alfarið) í eigu annarra fyrirtækja (þ.e. dótturfyrirtækjum) við þessum skatti.
Rök Gunnlaugs og svör við þeim
„Skatturinn kæmi líka niður á eftirsóknarverðum eignartengslum. Ekki er allt eignarhald fyrirtækja á öðrum fyrirtækjum neikvætt. Það er t.d. mikilvægt að menn geti stofnað saman hlutafélög um sameiginlegar fjárfestingar sínar. Æskilegt getur einnig verið fyrir eigendur fyrirtækja að geta fjárfest í samstarfi við önnur fyrirtæki, sem búa e.t.v. yfir þekkingu og viðskiptatengslum. Skatturinn virkar þess vegna eins og skurðaðgerð, sem ekki er bara beint gegn æxli sem þarf að losna við, heldur einnig líffærinu umhverfis það. Hann beinist bæði gegn hinu góða og hinu slæma.“
Það er rétt hjá Gunnlaugi að sum eignatengsl milli fyrirtækja eiga sér stað af eðlilegum viðskiptalegum ástæðum og eru því eftirsóknarverð. Hins vegar er auðvelt að gera of mikið úr mikilvægi slíkra tengsla. Í stórum hluta tilvika, líklega flestum tilfellum, gætu fyrirtækin náð sömu markmiðum annað hvort með því að gera með sér viðskiptasamninga sem ekki fela í sér eignatengsl eða með því að annað fyrirtækið væri gert að dótturfélagi í hinu, þ.e. alfarið í eigu hins.
Lykilatriðið er að samskipti fyrirtækja séu með þeim hætti að stjórnendur þeirra hafi ekki hvata til þess að misnota þau í þeim tilgangi að auka hagnað annarra fyrirtækja sem stjórnendurnir tengjast. Stjórnendur hafa slíka hvata þegar fyrirtækin sem þeir stjórna eiga ráðandi hlut í öðrum fyrirtækjum án þess þó að hafa keypt þau að fullu. Hvatinn er til staðar þar sem stjórnendurnir eru þá að hluta að ráðskast með fé smærri hluthafa.
Það er af þessum sökum sem ég geri greinarmun á því að fyrirtæki stofni dótturfélög (þar sem smærri hluthafar eru ekki til staðar) og almennum eignatengslum (þar sem þeir eru til staðar). Með skatti á arð milli fyrirtækja væri verið að hvetja fyrirtæki til þess að eiga samskipti við önnur fyrirtæki með samningum eða með sameiningum í stað almennra eignatengsla. Þetta væri gert vegna þess að almenn eignatengsl veita fyrirtækjum hvata til þess að hlunnfara smærri hluthafa á meðan hinar aðferðirnar gera það ekki.
„Skatturinn gerir það hlutfallslega hagstæðara fyrir meirihlutaeigendur í fyrirtækjum að ná peningum út úr þeim með óeðlilegum hætti. Arðgreiðslur, hin eðlilega leið sem gagnast öllum hluthöfum jafnt, eru orðnar óhagkvæmari en áður. Þess vegna er hvati til óeðlilegrar hegðunar orðinn meiri ef eignartengslin eru til á annað borð.“
Þetta er rétt. Þess vegna er mikilvægt að skatturinn nái því markmiði sínu að skera á eignatengsl fyrirtækja. Í Bandaríkjunum hefur hann einmitt gert það. Þar eiga fyrirtæki almennt ekki hver í öðru og því hefur skatturinn engin áhrif á hvata fyrirtækja þar í landi til þess að greiða út arð.
„Ef fyrirtæki vill eiga hlut í öðru fyrirtæki af annarlegum ástæðum, en ekki til þess að fá góðan hagnað af fjárfestingunni með beinum hætti, þjónar skatturinn á arðinn lítt þeim markmiðum sem Jón ætlar honum, því arðgreiðslurnar voru ekki ástæðan fyrir fjárfestingunni.“
Gefum okkur að fyrirtæki A kaupi hlut í fyrirtæki B og beyti síðan áhrifum sínum innan fyrirtækis B til þess að auka hagnað fyrirtækis A á kostnað fyrirtækis B. Þetta getur fyrirtæki A gert með ýmsum hætti sem allir eru ólöglegir. Fyrirtæki A getur til dæmis beitt sér fyrir því að fyrirtækin tvö geri samning um kaup á vöru eða þjónustu á verði sem ekki er í samræmi við markaðsverð en er þess í stað mun hagstæðara frá sjónarhóli fyrirtækis A (samanber „hækkun í hafi“). Slíkur samningur stangast á við skattalög þar sem í raun er verið að færa hagnað frá fyrirtæki B til fyrirtækis A. Grundvallaratriðið er hins vegar að allar aðgerðir stjórnenda eða stjórarmanna fyrirtækis B sem þeir framkvæma í öðrum tilgangi en að hámarka hag fyrirtækis B stangast á við skyldur þeirra gagnvart smærri hluthöfum í fyrirtæki B samkvæmt hlutafélagalögum.
Ef geta fyrirtækja til þess að framkvæma slíkar ólöglegar aðgerðir óhindrað er svo mikill að þau geta flutt allan hagnað til og frá innan viðskiptasamsteypa án þess að greiða út arð, þá kemur skattur á arðgreiðslur ekki að gagni við að brjóta þær upp. Ef hins vegar takmörk eru á því hversu mikið fyrirtæki geta gert af slíkum kúnstum þá byrjar skattur á arðgreiðslur að bíta. Ef skattalögum og hlutafélagalögum er framfylgt með þolanlegum hætti þá ætti stjórnendum í fyrirtækjasamsteypum að reynast erfitt að færa hagnað til innan samsteypanna í slíkum mæli að það komi í veg fyrir að skattur á arðgreiðslur nái því markmiði sínu að gera samsteypur óhagkvæmar.
„Skatturinn dregur úr hvata til arðgreiðslna. Það getur orðið þess valdandi að fyrirtæki sjái sér frekar hag í að fara í óheppilegar fjárfestingar en að greiða arð til hluthafa sem geta notað peningana betur.“
Þessi röksemd stenst einungis að svo miklu leyti sem skattur á arðgreiðslur nær ekki markmiði sínu. Ef slíkur skattur verður til þess að fyrirtæki hætta að eiga stór eignasöfn af hlutabréfum í öðrum fyrirtækjum þá hefur skattur á arðgreiðslur milli fyrirtækja engin áhrif á hvata fyrirtækja til þess að greiða út arð. Eins og fyrr segir er þetta einmitt reynsla Bandaríkjamanna.
„Gjarnan er erfitt að leita að fjármagni til nýsköpunar handa litlum fyrirtækjum. Oft er best að leita til stærri fyrirtækja um slíkt fjármagn, t.d. fyrirtækja í tengdum rekstri. Slíkar fjárfestingar verða óhagkvæmari fyrir fyrirtæki ef skatturinn er tekinn upp og því minnka hvatar til stuðnings við nýsköpun.“
Sprotafyrirtæki greiða sjaldnast arð á fyrsta hluta „ævi“ sinnar sem er einmitt sá tími þegar þau leita eftir fjármagni með þeim hætti sem Gunnlaugur lýsir. Fjárfestar sem koma inn í fyrirtæki svo snemma geta leyst út sinn hagnað með því að selja hlut sinn í fyrirtækinu eftir að það nær sæmilegri stærð og áður en það byrjar að greiða út arð. Einnig er unnt að skipuleggja fjárfestingu í sprotafyrirtækjum í gegnum fjárfestingarsjóði (e. venture capital funds) sem einstaklingar og lífeyrissjóðir eiga. Þannig gengur þetta fyrir sig í Bandaríkjunum. En Bandaríkin eru einmitt það land sem státar af þróaðasta fjármögnunarumhverfi fyrir sprotafyrirtæki í heimi. Ef litið er til Bandaríkjanna virðist því ekki vera sem skattar á arðgreiðslur milli fyrirtækja skaði sprotafyrirtæki. Þvert á móti er líklegt að slíkur skattur hjálpi sprotafyrirtækjum með því að ýta undir öflugan hlutabréfamarkað (sjá umfjöllun hér fyrir neðan).
„Skatturinn bitnar trúlega á viðskiptum með hlutabréf á mörkuðum, þar sem hann gerir fjárfestingu fyrirtækja í öðrum fyrirtækjum óhagkvæmari.“
Þvert á móti, flókin og víðtæk eignatengsl draga verulega úr virkni hlutabréfamarkaðarins þar sem þau minnka möguleika og hvata almennings til þess að kaupa hlutabréf í einstökum fyrirtækjum. Flókin og víðtæk eignatengsl leiða til þess að það er einfaldlega ekki hægt að fjárfesta í rekstri ákveðins fyrirtækis. Með því að kaupa hlutabréf í ákveðnu fyrirtæki neyðast fjárfestar til þess að kaupa ekki aðeins hlut í rekstri þess heldur einnig hlut í eignasafni þess. Þetta þýðir að þeir komast ekki hjá því að kaupa óbeinan hlut í stórum hluta af þeirri viðskiptablokk sem fyrirtækið tilheyrir.
Íslenski Kolkrabbinn, svokallaði, var ágætt dæmi um þetta þegar hann var og hét. Þá var til dæmis ekki hægt að kaupa hlut í rekstri Skeljungs án þess að kaupa samtímis óbeinan hlut í rekstri fjölda frystihúsa og annarra fyrirtækja; m.a. Sjóvá-Almennra sem fól aftur í sér óbeinan hlut í rekstri fjölda annarra fyrirtækja; m.a. Eimskips og svo framvegis. Þar að auki var hvati almennings til þess að kaupa hlut í slíkum fyrirtækjum minni en hann ella hefði verið þar sem almennir hluthafar gátu átt það á hættu að félagið sem þeir áttu hlut í væri notað til þess að verja hagsmuni stærri hluthafa annars staðar í viðskiptablokkinni eins og gerðist nokkrum sinnum með áberandi hætti þegar Kolkrabbinn var að liðast í sundur.
Það er engin tilviljun að hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum er öflugri en hlutabréfamarkaðir annarra landa. Ein af ástæðum þess er að í Bandaríkjunum eru þúsundir sjálfstæðra fyrirtækja skráð á hlutabréfamarkað. Í Þýskalandi, hins vegar, eru einungis hundruð mismunandi andlit nokkurra stórra viðskiptablokka á hlutabréfamarkaði. Það er ekki nema von að áhuga almennings í Þýskalandi á því að fjárfesta í hlutabréfum sé lítill.
„Þar sem skatturinn bitnar á viðskiptum með hlutabréf, verður fjármögnun fyrirtækja með lánsfjármagni enn hagkvæmari í samanburði við fjármögnun með hlutafé. Fyrirtæki mun frekar taka lán en afla hlutafjár. Það gerir rekstur fyrirtækja áhættusamari og eykur hættu á gjaldþrotum með tilheyrandi kostnaði.“
Þessi röksemd fellur þar sem forsendan um að skatturinn bitni á viðskiptum með hlutabréf fær ekki staðist. (Sjá umfjöllun hér að ofan.) Hvati fyrirtækja til þess að fjármagna sig með hlutafé ætti þvert á móti að aukast. En burt séð frá því, þá er alls ekki augljóst hvort venjuleg fyrirtæki hafa of mikla eða of litla hvata til þess að fjármagna sig með hlutafé. Það er því alls ekki augljóst hvort breytingar á þessum hvötum væru hagkvæmar eða óhagkvæmar.
„Trúlega er erfitt að framkvæma þetta, nema skatturinn verði líka lagður á erlend fyrirtæki sem fjárfesta í landinu. Slíkur skattur á fjárfestingar milli landa myndi draga úr erlendri fjárfestingu að öllu jöfnu.“
Í dag er skattur á fjármagnstekjur staðgreiddur á Íslandi. Þetta þýðir að fyrirtæki sem greiða arð draga 10% af öllum arðgreiðslum frá og skila í ríkissjóð. Þær arðgreiðslnanna sem runnu til fyrirtækja voru hins vegar ekki skattskyldar. Fyrirtækin sem fengu arðinn greiddan mega því fá skattinn sem tekinn var af honum endurgreiddann eða draga hann frá öðrum sköttum sem þau eiga að greiða. Um erlend félög gilda í sumum tilfellum sérstakar reglur þegar tvísköttunarsamningar eru til staðar milli Íslands og þess lands sem félagið er frá. Framkvæmdin er þó í grundvallaratriðum eins hvort sem um íslensk eða erlend fyrirtæki er að ræða. Það sem meira er, ekki þyrfti að gera neinar meiriháttar breytingar á framkvæmdinni ef skattur á arð milli fyrirtækja yrði settur á. Leggja mætti hærri eða lægri skatt á arðgreiðslur til erlendra fyrirtækja án þess að framkvæmd skattlagningarinnar yrði breytt svo neinu nemur.
„Skatturinn þýðir auknar tekjur fyrir ríkissjóð, sem fer trúlega verr með peningana en þeir sem skattlagðir eru.“
Markmið þessa skatts er alls ekki tekjuöflun. Raunar skilar hann engum tekjum ef hann nær því markmiði sínu að uppræta viðskiptasamsteypur. Í Bandaríkjunum skilar þessi skattur einmitt sáralitlu þar sem hann hefur náð markmiði sínu.
Mikilvægt Útfærsluatriði
Hingað til hef ég lítið fjallað um nákvæmlega hvernig skattur á arðgreiðslur milli fyrirtækja ætti að vera útfærður. Í rauninni er þörfin á slíkri umræðu ekki mikil þar sem unnt er að styðjast við útfærslu Bandaríkjamanna ef ákveðið verður að leggja á slíkan skatt á Íslandi. Þó er eitt útfærsluatriði sem mikilvægt er að umræðan taki mið af.
Gefum okkur að fyrirtæki A eigi hlut í fyrirtæki B. Í Bandaríkjunum er skattur á arðgreiðslur útfærður á þann hátt að skatthlutfallið sem fyrirtæki A þarf að greiða af arði sem það fær greitt frá fyrirtæki B lækkar eftir því sem fyrirtæki A á stærri hlut í fyrirtæki B. Í þessu sambandi er lykilatriði að þetta skatthlutfall lækki niður í 0 ef fyrirtæki A á það stóran hlut í fyrirtæki B að fyrirtæki B sé í raun dótturfélag í fyrirtækis A. Skattinum er ekki ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtæki A geti stofnað dótturfélög.
Skynsamleg úrfærsla á skatti á arðgreiðslur milli fyrirtækja gæti því til dæmis kveðið á um að skattur á arðgreiðslur milli fyrirtækja væri 20% nema fyrirtækið sem fær arðinn eigi að minnsta kosti 75% hlut í fyrirtækinu sem greiðir arðinn. Í því tilfelli væri skatthlutfallið 0%.
Nú er líklegt að hallmælendur skatts á arðgreiðslur milli fyrirtækja muni grípa þetta atriði á lofti og segja að fjölþrepa skattar gangi ekki vegna þess að þeir eru svo erfiðir í framkvæmd. Í þessu tilfelli eru slík rök ekki sannfærandi vegna þess að ekki þyrfti að breyta framkvæmd skatts á arðgreiðslur í neinum grundvallaratriðum frá því sem nú er. Eins og fjallað var um fyrr í þessari grein er skattur á arðgreiðslur staðgreiddur í dag og fyrirtæki fá skattinn síðan endurgreiddann. Tillaga mín breytir þessari framkvæmd einungis lítillega. Fyrirtæki myndu þá draga 20% skatt af arði sem rennur til fyrirtækja og 10% skatt af arði sem rennur til einstaklinga. Fyrirtæki sem eiga a.m.k. 75% hlut í fyrirtækinu sem greiddi arðinn myndu síðan fá þennan skatt endurgreiddann.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009